Hjarta á röngum stað Ólafur Þ. Stephensen skrifar 7. september 2013 06:00 Nú hafa um 65.000 manns skrifað undir áskorun um að tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur verði breytt þannig að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Undirskriftasöfnunin fer fram á vefsíðunni lending.is undir slagorðinu Hjartað í Vatnsmýrinni. Á síðunni eru færð fram margvísleg rök fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera áfram þar sem hann er. Sum skipta engu máli, eins og þau að Vatnsmýrin eigi sér svo langa og óslitna flugsögu. Miðstöð þungaflutninga með skipum væri enn í gömlu höfninni ef svoleiðis rök væru einhvers virði. Flest annað sem er tínt til, til dæmis um efnahagslegt mikilvægi innanlandsflugs, jákvæð umhverfisáhrif flugumferðar umfram einkabílaumferð, gagnið af flugkennslu og svo framvegis, myndi eiga við um flugvöll hvar sem hann væri staðsettur í nágrenni höfuðborgarinnar. Í rauninni virðast aðeins tvenn rök eiga við um staðsetningu flugvallar í Vatnsmýrinni sérstaklega; að veðurfarsskilyrði séu betri þar en á öðrum flugvallarstæðum sem hafa verið skoðuð og að nálægðin við Landspítalann skipti máli upp á sjúkraflug. Það er alls ekki ástæða til að gera lítið úr þessu tvennu, en það getur samt varla þýtt að það sé enginn annar staður fyrir flugvöll. Svo eru býsna góð rök fyrir þeirri afstöðu borgarstjórnar Reykjavíkur að flugvöllurinn eigi að víkja úr Vatnsmýrinni. Í fyrsta lagi voru borgarbúar spurðir í atkvæðagreiðslu hvort hann ætti að fara eða vera og meirihlutinn sagði að hann ætti að fara. Í öðru lagi er völlurinn risavaxin hindrun í vegi fyrir eðlilegri þróun borgarinnar. Það eru skýr hagkvæmnisrök fyrir því að þétta borgina í stað þess að halda áfram að þenja hana út um nærsveitirnar, nýta þannig betur fjárfestinguna í gatna- og veitukerfum, draga úr umferð og auðvelda fólki að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að ferðast milli staða. Kannanir sýna að nýjar kynslóðir borgarbúa vilja frekar búa þétt en dreift. Í þriðja lagi fylgir flugvellinum ógn við öryggi borgarbúa með stöðugu lágflugi yfir íbúðahverfi. Sú ógn fer vaxandi ef umsvif á vellinum aukast með fjölgun ferðamanna. Völlurinn er líka orðinn frekari á umhverfi sitt en áður, eins og áform um fyrirferðarmikil lendingarljós og fellingu gamals skógar á útivistarsvæðum borgarbúa sýnir. Völlurinn er raunar á alls konar undanþágum frá öryggisreglum, sem ekki þyrfti ef hann væri annars staðar. Reykjavíkurflugvöllur getur verið hjartað í flugsamgöngum landsins án þess að hann sé í Vatnsmýrinni. Sátt um flugvöllinn getur ekki falizt í að borgarbúar sætti sig við óbreytt ástand, eins og forsætisráðherranum finnst að þeir eigi að gera. Ekki heldur í því að ríkið taki með frekju skipulagsvaldið af borginni, eins og Höskuldur Þórhallsson samflokksmaður hans leggur til. Sáttin hlýtur að felast í að hvorir tveggju hagsmunirnir séu tryggðir; framtíðarþróun Reykjavíkur með þéttingu byggðar og greiðar og öruggar flugsamgöngur höfuðborgarinnar við aðra landshluta. Það eru ýmsar leiðir færar að slíkri sátt. Hefði ekki verið miklu nær að safna undirskriftum til stuðnings slíkri nálgun? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Er píparinn þinn skattsvikari? Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Kæra unga móðir Jóna Þórey Pétursdóttir Skoðun Kosningar og ,ehf gatið‘ Róbert Farestveit Skoðun Verði þitt val, svo á jörðu sem á himni Halldóra Lillý Jóhannsdóttir Skoðun Grípum tækifærin og sköpum bjartari framtíð Ísak Leon Júlíusson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Frelsi til að búa þar sem þú vilt Sæunn Gísladóttir Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Öryggis annarra vegna… Ingunn Björnsdóttir Skoðun
Nú hafa um 65.000 manns skrifað undir áskorun um að tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur verði breytt þannig að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni. Undirskriftasöfnunin fer fram á vefsíðunni lending.is undir slagorðinu Hjartað í Vatnsmýrinni. Á síðunni eru færð fram margvísleg rök fyrir því að Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera áfram þar sem hann er. Sum skipta engu máli, eins og þau að Vatnsmýrin eigi sér svo langa og óslitna flugsögu. Miðstöð þungaflutninga með skipum væri enn í gömlu höfninni ef svoleiðis rök væru einhvers virði. Flest annað sem er tínt til, til dæmis um efnahagslegt mikilvægi innanlandsflugs, jákvæð umhverfisáhrif flugumferðar umfram einkabílaumferð, gagnið af flugkennslu og svo framvegis, myndi eiga við um flugvöll hvar sem hann væri staðsettur í nágrenni höfuðborgarinnar. Í rauninni virðast aðeins tvenn rök eiga við um staðsetningu flugvallar í Vatnsmýrinni sérstaklega; að veðurfarsskilyrði séu betri þar en á öðrum flugvallarstæðum sem hafa verið skoðuð og að nálægðin við Landspítalann skipti máli upp á sjúkraflug. Það er alls ekki ástæða til að gera lítið úr þessu tvennu, en það getur samt varla þýtt að það sé enginn annar staður fyrir flugvöll. Svo eru býsna góð rök fyrir þeirri afstöðu borgarstjórnar Reykjavíkur að flugvöllurinn eigi að víkja úr Vatnsmýrinni. Í fyrsta lagi voru borgarbúar spurðir í atkvæðagreiðslu hvort hann ætti að fara eða vera og meirihlutinn sagði að hann ætti að fara. Í öðru lagi er völlurinn risavaxin hindrun í vegi fyrir eðlilegri þróun borgarinnar. Það eru skýr hagkvæmnisrök fyrir því að þétta borgina í stað þess að halda áfram að þenja hana út um nærsveitirnar, nýta þannig betur fjárfestinguna í gatna- og veitukerfum, draga úr umferð og auðvelda fólki að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að ferðast milli staða. Kannanir sýna að nýjar kynslóðir borgarbúa vilja frekar búa þétt en dreift. Í þriðja lagi fylgir flugvellinum ógn við öryggi borgarbúa með stöðugu lágflugi yfir íbúðahverfi. Sú ógn fer vaxandi ef umsvif á vellinum aukast með fjölgun ferðamanna. Völlurinn er líka orðinn frekari á umhverfi sitt en áður, eins og áform um fyrirferðarmikil lendingarljós og fellingu gamals skógar á útivistarsvæðum borgarbúa sýnir. Völlurinn er raunar á alls konar undanþágum frá öryggisreglum, sem ekki þyrfti ef hann væri annars staðar. Reykjavíkurflugvöllur getur verið hjartað í flugsamgöngum landsins án þess að hann sé í Vatnsmýrinni. Sátt um flugvöllinn getur ekki falizt í að borgarbúar sætti sig við óbreytt ástand, eins og forsætisráðherranum finnst að þeir eigi að gera. Ekki heldur í því að ríkið taki með frekju skipulagsvaldið af borginni, eins og Höskuldur Þórhallsson samflokksmaður hans leggur til. Sáttin hlýtur að felast í að hvorir tveggju hagsmunirnir séu tryggðir; framtíðarþróun Reykjavíkur með þéttingu byggðar og greiðar og öruggar flugsamgöngur höfuðborgarinnar við aðra landshluta. Það eru ýmsar leiðir færar að slíkri sátt. Hefði ekki verið miklu nær að safna undirskriftum til stuðnings slíkri nálgun?