Fótbolti

Annar af tveimur eftirminnilegustu leikjum Lagerbäck

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. Mynd/Stefán
Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, var spurður út í það á blaðamannafundi í gær hvort að endurkoman á móti Sviss væri sú eftirminnilegasta á þjálfaraferlinum.

„Ég hef verið heppinn og fengið að upplifa marga skemmtilega fótboltaleiki með mínum liðum en þegar kemur að eftirminnilegustu endurkomunum þá man ég bara eftir einum leik sem kemst í flokk með leiknum á móti Sviss. Svíþjóð mætti þá Tyrklandi á útivelli í undankeppni HM 2002 og við náðum að tryggja okkur sigur með tveimur mörkum á síðustu fjórum mínútunum,“ sagði Lars Lagerbäck.

Tyrkir komust yfir með marki Hakan Sukur á 51. mínútu en Henrik Larsson jafnaði á 87. mínútu og Andreas Andersson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Þessi úrslit áttu mestan þátt í því að Svíar unnu riðilinn og komust beint á HM.

„Við vorum að spila við eitt af fimmtán til tuttugu bestu liðum heims og það er magnað að geta komið svona til baka. En þetta er ein af ástæðunum af hverju ég er svo hrifinn af því að vinna með íslenskum strákunum. Hugarfarið er frábært og karkaterinn er einstakur," sagði Lagerbäck.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×