Næst er að éta útsæðið Þorsteinn Pálsson skrifar 26. október 2013 06:00 Í meira en sjö áratugi hefur þjóðarbúskapurinn nokkuð reglulega fengið tímabundnar utan að komandi innspýtingar. Þessi staðreynd er umhugsunarefni nú þegar ljóst er orðið að lítil von er til þess að unnt verði að leysa þjóðina úr fjötrum fjármagnshafta. Nafnbreyting á höftunum er það eina sem augað eygir þegar horft er fram á við. Meðan seinna stríðið færði eymd og hörmungar yfir flest ríki Evrópu flutti það gjaldeyri og velmegun til Íslands. Nýsköpunarstjórnin hagnýtti gróðann til umfangsmikilla fjárfestinga í sjávarútvegi. Þetta var mikil lyftistöng. En stríðinu lauk og í hlutarins eðli lá að stríðsgróðinn reyndist ekki sjálfbær. Þá vildi það þjóðarbúskapnum til happs að Bandaríkjamenn stofnuðu sjóð til viðreisnar Evrópu. Þó að Ísland hafi grætt en ekki tapað á stríðinu fékk það ríkulega aðstoð. Hún var nýtt til fjárfestinga í verksmiðjum og raforkuverum á sjötta áratugnum. Þessi búbjörg hafði veruleg áhrif. Hún stuðlaði að betri sjálfbærni hagkerfisins en innspýtingin sjálf var vitaskuld ekki viðvarandi. Í byrjun áttunda áratugarins var rányrkja Breta og og fleiri þjóða stöðvuð á Íslandsmiðum. En í stað þess að vernda fiskistofnana hélt Ísland rányrkju þeirra áfram. Það var gríðarleg innspýting í hagkerfið í ríflega einn og hálfan áratug. Þá varð ekki lengur undan því vikist að hefja ábyrga verndunarstefnu. Þegar upp var staðið hafði rányrkjan fyrst og fremst verið tímabundin ósjálfbær innspýting.Syndaflóð erlendra lána Í byrjun nýrrar aldar var gengi krónunnar sett á flot. Skemmst er frá því að segja að þá hófst slík innspýting af erlendu lánsfé að fordæmi finnast ekki þótt leitað sé um víða veröld. Lífskjörin bötnuðu að sama skapi á pappírnum. Vandinn var hins vegar sá að þetta var lítið annað en ósjálfbært syndaflóð erlendra lána. Þessi innspýtingarblaðra sprakk og afleiðingarnar urðu mun dramatískari en endalok þeirra fyrri. Þannig hafa fjórar mismunandi en meiri háttar og tímabundnar innspýtingar í hagkerfið lyft lífskjörum í landinu á lýðveldistímanum. Síðasta gengishrun leiddi svo til mikillar kjaraskerðingar og skildi líka eftir djúp sár í samfélaginu. Sumir halda hinu fram að í gengishruninu hafi falist einstæð gæfa. Það hafi styrkt útflutninginn. Rétt er að gengishrunið færði krónur frá almenningi til útflutningsfyrirtækja. En hagtölur sýna að á tíma vinstri stjórnarinnar var framlag útflutnings til hagvaxtar samt neikvætt. Efnahagsáætlunin sem birtist í fjárlagafrumvarpi nýrrar stjórnar boðar ekki neina breytingu að þessu leyti á næstu árum. Kenningin stóðst ekki af því að gengið ræður ekki nema að svo litlu leyti vaxtarmöguleikum stærsta hluta útflutningsframleiðslunnar og vöxtur nýrra greina er takmarkaður með ógjaldgengri mynt. Fyrir vikið hefur mistekist að gefa mönnum vonir um að unnt sé bæta samkeppnishæfni landsins svo að auka megi til muna sjálfbæra verðmætasköpun.Er bábiljan þess virði? Að öllu þessu virtu hefur verið ljóst í all nokkurn tíma að rétt væri að skoða kerfisbreytingu í peningamálum. Skoðanakannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar vill ekki útiloka þann möguleika. Jafnvel VG er opið fyrir því. Samfylkingin og Björt framtíð eru fylgjandi breytingum. Og landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði um nauðsyn þess að kanna þá kosti. Eigi að síður eru allar kerfisbreytingar í peningamálum útilokaðar eftir kosningarnar á liðnu vori. Þjóðin er því föst í pólitískri bóndabeygju. Fimmta utan að komandi innspýtingin er ekki í sjónmáli. Góð ráð eru því dýr. Hlutfallslega eigum við næstmesta lífeyrissparnað í heimi. Nú þegar allt um þrýtur beinast augu manna að honum. Ein af forsendunum fyrir því að hleypa megi kröfuhöfunum úr landi er að festa lífeyrissjóðina varanlega í höftum. Þeim er ætlað að fjármagna ríkissjóð með lítilli ávöxtun. Það er kallað eftir lífeyrissparnaðinum til að leysa hallarekstur húsnæðiskerfisins. Og sú fjárfestingarhugmynd kviknar tæpast að ekki þyki sjálfsagt að breyta lögum til að lífeyrissjóðirnir geti tekið meiri áhættu en markaðurinn metur skynsamlega. Ef við neyðumst til að veikja lífeyrissparnaðarkerfið eða láta það mynda nýja eignabólu í steinsteypu og hlutabréfum hefur það svipuð áhrif á þjóðarbúskapinn eins og það virkar á búskap kartöflubóndans að éta útsæðið. Þessi ógn er raunveruleg. Eina leiðin til að verja þennan mikilvæga sparnað er að opna fyrir fjárfestingar í raunverulegum gjaldmiðlum. Fullreynt er að það gerist ekki nema með nýrri mynt. En vegna bábilju gegn kerfisbreytingum í peningamálum stöndum við nú andspænis þeirri freistingu að byrja að éta útsæðið. Er bábiljan þess virði? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Skjáfíkn - vísindi eða trú? Ásdís Bergþórsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Listin að styðja en ekki stýra Árni Sigurðsson Skoðun
Í meira en sjö áratugi hefur þjóðarbúskapurinn nokkuð reglulega fengið tímabundnar utan að komandi innspýtingar. Þessi staðreynd er umhugsunarefni nú þegar ljóst er orðið að lítil von er til þess að unnt verði að leysa þjóðina úr fjötrum fjármagnshafta. Nafnbreyting á höftunum er það eina sem augað eygir þegar horft er fram á við. Meðan seinna stríðið færði eymd og hörmungar yfir flest ríki Evrópu flutti það gjaldeyri og velmegun til Íslands. Nýsköpunarstjórnin hagnýtti gróðann til umfangsmikilla fjárfestinga í sjávarútvegi. Þetta var mikil lyftistöng. En stríðinu lauk og í hlutarins eðli lá að stríðsgróðinn reyndist ekki sjálfbær. Þá vildi það þjóðarbúskapnum til happs að Bandaríkjamenn stofnuðu sjóð til viðreisnar Evrópu. Þó að Ísland hafi grætt en ekki tapað á stríðinu fékk það ríkulega aðstoð. Hún var nýtt til fjárfestinga í verksmiðjum og raforkuverum á sjötta áratugnum. Þessi búbjörg hafði veruleg áhrif. Hún stuðlaði að betri sjálfbærni hagkerfisins en innspýtingin sjálf var vitaskuld ekki viðvarandi. Í byrjun áttunda áratugarins var rányrkja Breta og og fleiri þjóða stöðvuð á Íslandsmiðum. En í stað þess að vernda fiskistofnana hélt Ísland rányrkju þeirra áfram. Það var gríðarleg innspýting í hagkerfið í ríflega einn og hálfan áratug. Þá varð ekki lengur undan því vikist að hefja ábyrga verndunarstefnu. Þegar upp var staðið hafði rányrkjan fyrst og fremst verið tímabundin ósjálfbær innspýting.Syndaflóð erlendra lána Í byrjun nýrrar aldar var gengi krónunnar sett á flot. Skemmst er frá því að segja að þá hófst slík innspýting af erlendu lánsfé að fordæmi finnast ekki þótt leitað sé um víða veröld. Lífskjörin bötnuðu að sama skapi á pappírnum. Vandinn var hins vegar sá að þetta var lítið annað en ósjálfbært syndaflóð erlendra lána. Þessi innspýtingarblaðra sprakk og afleiðingarnar urðu mun dramatískari en endalok þeirra fyrri. Þannig hafa fjórar mismunandi en meiri háttar og tímabundnar innspýtingar í hagkerfið lyft lífskjörum í landinu á lýðveldistímanum. Síðasta gengishrun leiddi svo til mikillar kjaraskerðingar og skildi líka eftir djúp sár í samfélaginu. Sumir halda hinu fram að í gengishruninu hafi falist einstæð gæfa. Það hafi styrkt útflutninginn. Rétt er að gengishrunið færði krónur frá almenningi til útflutningsfyrirtækja. En hagtölur sýna að á tíma vinstri stjórnarinnar var framlag útflutnings til hagvaxtar samt neikvætt. Efnahagsáætlunin sem birtist í fjárlagafrumvarpi nýrrar stjórnar boðar ekki neina breytingu að þessu leyti á næstu árum. Kenningin stóðst ekki af því að gengið ræður ekki nema að svo litlu leyti vaxtarmöguleikum stærsta hluta útflutningsframleiðslunnar og vöxtur nýrra greina er takmarkaður með ógjaldgengri mynt. Fyrir vikið hefur mistekist að gefa mönnum vonir um að unnt sé bæta samkeppnishæfni landsins svo að auka megi til muna sjálfbæra verðmætasköpun.Er bábiljan þess virði? Að öllu þessu virtu hefur verið ljóst í all nokkurn tíma að rétt væri að skoða kerfisbreytingu í peningamálum. Skoðanakannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar vill ekki útiloka þann möguleika. Jafnvel VG er opið fyrir því. Samfylkingin og Björt framtíð eru fylgjandi breytingum. Og landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði um nauðsyn þess að kanna þá kosti. Eigi að síður eru allar kerfisbreytingar í peningamálum útilokaðar eftir kosningarnar á liðnu vori. Þjóðin er því föst í pólitískri bóndabeygju. Fimmta utan að komandi innspýtingin er ekki í sjónmáli. Góð ráð eru því dýr. Hlutfallslega eigum við næstmesta lífeyrissparnað í heimi. Nú þegar allt um þrýtur beinast augu manna að honum. Ein af forsendunum fyrir því að hleypa megi kröfuhöfunum úr landi er að festa lífeyrissjóðina varanlega í höftum. Þeim er ætlað að fjármagna ríkissjóð með lítilli ávöxtun. Það er kallað eftir lífeyrissparnaðinum til að leysa hallarekstur húsnæðiskerfisins. Og sú fjárfestingarhugmynd kviknar tæpast að ekki þyki sjálfsagt að breyta lögum til að lífeyrissjóðirnir geti tekið meiri áhættu en markaðurinn metur skynsamlega. Ef við neyðumst til að veikja lífeyrissparnaðarkerfið eða láta það mynda nýja eignabólu í steinsteypu og hlutabréfum hefur það svipuð áhrif á þjóðarbúskapinn eins og það virkar á búskap kartöflubóndans að éta útsæðið. Þessi ógn er raunveruleg. Eina leiðin til að verja þennan mikilvæga sparnað er að opna fyrir fjárfestingar í raunverulegum gjaldmiðlum. Fullreynt er að það gerist ekki nema með nýrri mynt. En vegna bábilju gegn kerfisbreytingum í peningamálum stöndum við nú andspænis þeirri freistingu að byrja að éta útsæðið. Er bábiljan þess virði?