Minna RÚV með skýrara hlutverk Ólafur Þ. Stephensen skrifar 28. nóvember 2013 06:00 Uppsagnir hátt í fjörutíu starfsmanna Ríkisútvarpsins í gær vekja athygli og umræður. Gott fagfólk, sem margt hvert hefur orðið heimilisvinir landsmanna í gegnum viðtækin, missti vinnuna og að því er að sjálfsögðu eftirsjá. Samdráttur í umsvifum RÚV frá hruni er þó sízt meiri en hjá einkareknum fjölmiðlafyrirtækjum, sem líka hafa þurft að taka sársaukafullar ákvarðanir um að fækka starfsfólki. Það er einfaldlega úr minni peningum að spila á Íslandi. Auglýsingamarkaðurinn hefur ekki rétt úr kútnum og ríkissjóður, sem leggur RÚV til stærstan hluta rekstrarfjárins, er rekinn með halla. Það er ekki hægt að fara til skattgreiðenda og biðja um meiri peninga. Starfsemi sem rekin er fyrir þeirra fé verður að sníða stakk eftir vexti. Það á við um RÚV eins og önnur ríkisfyrirtæki. Skerðing á þjónustu RÚV er boðuð og er óhjákvæmileg, miðað við að lækka þurfi árlegan rekstrarkostnað um 500 milljónir króna, eins og Páll Magnússon útvarpsstjóri metur það. Hins vegar má draga í efa að það sé rétt stefna að segja upp nokkrum hér og nokkrum þar. Að minnsta kosti til lengri tíma hlýtur að þurfa að forgangsraða í starfseminni, þannig að RÚV sinni því hlutverki sem ríkisútvarp á að gera; að veita þjónustu sem einkareknir fjölmiðlar gera ekki eða ekki er hægt að ætlast til að þeir geri, en hætti því sem aðrir gera jafnvel eða betur. Í undirskriftasöfnun, sem nú er hafin til að mótmæla sparnaðinum hjá RÚV, er vikið að lögbundnu menningar- og öryggishlutverki þess, gildi RÚV sem óháðs fréttamiðils, fræðsluhlutverki og framlagi til skemmtunar og afþreyingar. Ríkisútvarpið á að sjálfsögðu að einbeita sér að menningar- og öryggishlutverkinu, upplýsingunum og fræðslunni. Um skemmtunina sjá aðrir. RÚV þarf til dæmis ekki tvær útvarpsstöðvar til að sinna þessu hlutverki. Svo vitnað sé til orða Páls Magnússonar, þegar hann var útvarpsstjóri á einkamiðli: „Til hvers í ósköpunum er ríkið að halda úti afþreyingarrás á borð við Rás 2, þegar sprottið hafa upp frjálsar stöðvar sem eru að gera nákvæmlega það sama?“ Ríkisútvarpið þarf heldur ekki að verja hundruðum milljóna króna til að kaupa útsendingarrétt að erlendum íþróttakappleikjum, í harðri samkeppni við einkafyrirtæki. Yfirboð RÚV í slíkum viðskiptum benda til að þar hafi menn fyrir löngu misst sjónar á hvað sé skynsamleg meðferð skattpeninganna sem þeim er treyst fyrir. Og RÚV þarf ekki að senda út Hollywood-bíómyndir, amerískar eða ameríkaníseraðar þáttaraðir eða skemmtiþætti. Það er nóg af slíku á einkastöðvunum. RÚV getur sinnt með sóma sínu öryggis-, menningar-, upplýsinga- og fræðsluhlutverki fyrir minni peninga. Þegar Páll Magnússon tók við útvarpsstjórastarfinu sagði hann að RÚV þyrfti að „gera upp við sig hvernig það vill verða og raða hlutverkum í ákveðinn forgang og ég tel að á þeim sviðum, sem Ríkisútvarpið ætlar á annað borð að beita sér, eigi það að gerast af fullum krafti...“ Páll ætti að taka mark á þessum skynsamlegu eigin orðum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun Skjáfíkn - vísindi eða trú? Ásdís Bergþórsdóttir Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Listin að styðja en ekki stýra Árni Sigurðsson Skoðun
Uppsagnir hátt í fjörutíu starfsmanna Ríkisútvarpsins í gær vekja athygli og umræður. Gott fagfólk, sem margt hvert hefur orðið heimilisvinir landsmanna í gegnum viðtækin, missti vinnuna og að því er að sjálfsögðu eftirsjá. Samdráttur í umsvifum RÚV frá hruni er þó sízt meiri en hjá einkareknum fjölmiðlafyrirtækjum, sem líka hafa þurft að taka sársaukafullar ákvarðanir um að fækka starfsfólki. Það er einfaldlega úr minni peningum að spila á Íslandi. Auglýsingamarkaðurinn hefur ekki rétt úr kútnum og ríkissjóður, sem leggur RÚV til stærstan hluta rekstrarfjárins, er rekinn með halla. Það er ekki hægt að fara til skattgreiðenda og biðja um meiri peninga. Starfsemi sem rekin er fyrir þeirra fé verður að sníða stakk eftir vexti. Það á við um RÚV eins og önnur ríkisfyrirtæki. Skerðing á þjónustu RÚV er boðuð og er óhjákvæmileg, miðað við að lækka þurfi árlegan rekstrarkostnað um 500 milljónir króna, eins og Páll Magnússon útvarpsstjóri metur það. Hins vegar má draga í efa að það sé rétt stefna að segja upp nokkrum hér og nokkrum þar. Að minnsta kosti til lengri tíma hlýtur að þurfa að forgangsraða í starfseminni, þannig að RÚV sinni því hlutverki sem ríkisútvarp á að gera; að veita þjónustu sem einkareknir fjölmiðlar gera ekki eða ekki er hægt að ætlast til að þeir geri, en hætti því sem aðrir gera jafnvel eða betur. Í undirskriftasöfnun, sem nú er hafin til að mótmæla sparnaðinum hjá RÚV, er vikið að lögbundnu menningar- og öryggishlutverki þess, gildi RÚV sem óháðs fréttamiðils, fræðsluhlutverki og framlagi til skemmtunar og afþreyingar. Ríkisútvarpið á að sjálfsögðu að einbeita sér að menningar- og öryggishlutverkinu, upplýsingunum og fræðslunni. Um skemmtunina sjá aðrir. RÚV þarf til dæmis ekki tvær útvarpsstöðvar til að sinna þessu hlutverki. Svo vitnað sé til orða Páls Magnússonar, þegar hann var útvarpsstjóri á einkamiðli: „Til hvers í ósköpunum er ríkið að halda úti afþreyingarrás á borð við Rás 2, þegar sprottið hafa upp frjálsar stöðvar sem eru að gera nákvæmlega það sama?“ Ríkisútvarpið þarf heldur ekki að verja hundruðum milljóna króna til að kaupa útsendingarrétt að erlendum íþróttakappleikjum, í harðri samkeppni við einkafyrirtæki. Yfirboð RÚV í slíkum viðskiptum benda til að þar hafi menn fyrir löngu misst sjónar á hvað sé skynsamleg meðferð skattpeninganna sem þeim er treyst fyrir. Og RÚV þarf ekki að senda út Hollywood-bíómyndir, amerískar eða ameríkaníseraðar þáttaraðir eða skemmtiþætti. Það er nóg af slíku á einkastöðvunum. RÚV getur sinnt með sóma sínu öryggis-, menningar-, upplýsinga- og fræðsluhlutverki fyrir minni peninga. Þegar Páll Magnússon tók við útvarpsstjórastarfinu sagði hann að RÚV þyrfti að „gera upp við sig hvernig það vill verða og raða hlutverkum í ákveðinn forgang og ég tel að á þeim sviðum, sem Ríkisútvarpið ætlar á annað borð að beita sér, eigi það að gerast af fullum krafti...“ Páll ætti að taka mark á þessum skynsamlegu eigin orðum.