Fótbolti

Fyrrum landsliðsmaður Þýskalands kemur úr skápnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Thomas Hitzlsperger.
Thomas Hitzlsperger. Nordic Photos / Getty
Þýski knattspyrnumaðurinn Thomas Hitzlsperger greinir frá því í samtali við þýska fjölmliðla í dag að hann sé samkynhneigður.

Hitzlsperger lagði skóna á hilluna fyrir fjórum mánuðum síðar en hann lék með Stuttgart, Wolfsburg, Aston Villa, Everton og Roma á ferlinum. Hann lék einnig 52 leiki með þýska landsliðinu frá 2004 til 2010.

„Ég opinbera nú samkynhneigð mína því ég vil skapa umræðu um samkynhneigð hjá atvinnumönnum í íþróttum,“ sagði Hitzlsperger í samtali við þýska blaðið Zeit.

„Ég gerði mér fyrst grein fyrir því á undanförnum árum að ég vildi frekar vera í sambandi með karlmanni,“ sagði hann en bætir við að hann hafi ekki fundið vettvang fyrir umræðu um þessi mál innan íþróttarinnar.

„Það þykir ekki stórmál að vera hommi á Englandi, Ítalíu eða Þýskalandi - nema í búningsklefanum. Samkynhneigð er algjörlega hunsuð í fótboltanum.“

Hitzlsperger segir að fótboltinn hafi það orð á sér að vera íþrótt fyrir hörkutól og að klisjan sé sú að hommar séu ekki nógu harðir af sér fyrir slíkt umhverfi. Einnig segir hann að það hafi verið erfitt fyrir sig að hlusta á liðsfélaga sína tala illa um homma og gera grín að þeim. „En ég hef aldrei skammast mín fyrir það sem ég er,“ sagði Hitzlsperger.

Hitzlsperger, sem er einungis 31 árs gamall, ákvað í haust að ljúka ferli sínum þrátt fyrir að hafa fengið tilboð frá félögum. Ástæðuna sagði hann álag vegna meiðsla og tíðra félagaskipta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×