Fótbolti

Emil og Birkir á bekknum á Ítalíu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil í leik með Hellas Verona.
Emil í leik með Hellas Verona. Vísir/Getty
Emil Hallfreðsson kom ekkert við sögu hjá Hellas Verona þegar liðið tapaði 2-0 fyrir Parma á útivelli í dag. Eftir leikinn er Parma þremur stigum á undan Verona í sjötta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Birkir Bjarnason sat sömuleiðis allan tímann á varamannabekknum hjá Sampdoria sem vann góðan heimasigur á Livorno, 4-2. Birkir hefur lítið komið við sögu hjá Sampdoria að undanförnu, en hann hefur ekki verið í byrjunarliðinu síðan í bikarleik gegn Roma 9. janúar.

Juventus styrkti stöðu sína á toppnum A enn frekar með sigri á Fiorentina, 1-0. Ganamaðurinn Kwadwo Asamoah skoraði eina mark leiksins á 42. mínútu.

Þetta var fjórði sigurleikur Juventus í röð í deildinni og liðið situr í efsta sæti með 72 stig, 14 stigum á undan Roma sem heimsækir Napoli í kvöld í stórleik umferðarinnar á Ítalíu. Fiorentina situr eftir sem áður í fjórða sæti, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti.

Það gengur lítið hjá Clarence Seedorf og félögum í AC Milan þessa dagana. Um síðustu helgi tapaði liðið fyrir Juventus og í gær laut Milan í lægra haldi fyrir Udinese á útivelli, en markahrókurinn Antonio Di Natale tryggði sínum mönnum stigin þrjú með eina marki leiksins um miðbik seinni hálfleiks.

Milan situr sem stendur í 10. sæti Serie A, fjórum stigum á undan Udinese sem er í því 13.

Úrslit dagsins:

Juventus – Fiorentina 1-0

Bologna – Sassuolo 0-0

Chievo – Genoa 2-1

Internazionale – Torino 1-0

Lazio – Atalanta 0-1

Parma – Verona 2-0

Sampdoria – Liverno 4-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×