Körfubolti

NBA: Durant með 30 stig í seinni hálfleik og loksins Þrumusigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant.
Kevin Durant. Vísir/AP
Kevin Durant skoraði 30 stig í seinni hálfleik þegar Oklahoma City Thunder endaði þriggja leikja taphrinu, Stephen Curry var með þrennu í sigri Golden State Warriors í Madison Square Garden í New York, Kyrie Irving náði sinni fyrstu þrennu á ferlinum og Los Angeles Lakers liðið setti félagsmet með því að skora 19 þriggja stiga körfur.

Kevin Durant skoraði 30 af 37 stigum sínum í seinni hálfleik þegar Oklahoma City Thunder endaði þriggja leikja taphrinu með 113-107 sigri á Memphis Grizzlies. Russell Westbrook var með 21 stig og 6 stoðsendingar á 28 mínútum en Thunder-liðið hafði fyrir leikinn tapað öllum leikjum sínum frá því að hann kom aftur eftir meiðsli. Mike Miller skoraði öll 19 stigin sín í fjórða leikhluta sem hjálpuðu Grizzlies-liðinu að gera leikinn spennandi undir lokin.

Stephen Curry var með 27 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar þegar Golden State Warriors vann 126-103 útisigur á New York Knicks en Curry spilaði samt ekkert í lokaleikhlutanum. Klay Thompson skoraði 25 stig fyrir Golden State en Carmelo Anthony var með 23 stig og 16 fráköst fyrir Knicks-liðið sem tapaði sínum fimmta leik í röð.

Kyrie Irving var með fyrstu þrennu sína á ferlinum þegar hann leiddi Cleveland Cavaliers til 99-79 sigur á Utah Jazz en besti leikmaður Stjörnuleiksins á dögunum var með 21 stig, 12 stoðsendingar og 10 fráköst í þessum leik. Irving varð þar með fyrsti leikmaður Cleveland til að ná þrennu síðan að LeBron James afrekaði það 16. mars 2010.

Goran Dragic setti persónulegt met með því að skora 40 stig í 116-104 sigri Phoenix Suns á New Orleans Pelicans. Þetta var annað persónulega stigamet Slóvenans í síðustu þremur leikjum og Suns-liðið endaði þriggja leikja taphrinu með þessum sigri. Anthony Davis skoraði 32 stig fyrir Pelíkanana.

Jordan Farmar hitti úr 8 af 10 þriggja stiga skotum sínum og skoraði alls 30 stig þegar Los Angeles Lakers vann 126-122 sigur á Sacramento Kings en Lakers-menn hittu úr 19 af 27 þriggja stiga skotum sínum og settu nýtt félagsmet í þristum.  MarShon Brooks var með 23 stig fyrir Lakers-liðið, Jodie Meeks hitti úr öllum átta skotum sínum og var með 22 stig eins og Pau Gasol.

Tim Duncan var með 17 stig og 16 fráköst þegar San Antonio Spurs vann 92-82 sigur á Charlotte Bobcats. Manu Ginobili skoraði 15 stig og þeir Marco Belinelli og Patty Mills voru báðir með 14 stig.

Úrslit í öllum leikjum NBA-deildarinnar í nótt:

Cleveland Cavaliers - Utah Jazz 99-79

Oklahoma City Thunder - Memphis Grizzlies 113-107

New York Knicks - Golden State Warriors 103-126

Dallas Mavericks - Chicago Bulls 91-100

San Antonio Spurs - Charlotte Bobcats 92-82

Los Angeles Lakers - Sacramento Kings 126-122

Phoenix Suns - New Orleans Pelicans 116-104

Staðan í NBA-deildinni:











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×