Körfubolti

Noah: Durant er sá besti í heimi í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joakim Noah er búinn að missa hér Kevin Durant og KD treður boltanum í körfuna.
Joakim Noah er búinn að missa hér Kevin Durant og KD treður boltanum í körfuna. Vísir/AP
Flestir eru á því að baráttan um hver verði kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta standi á milli þeirra LeBron James og Kevin Durant. James hefur unnið verðlaunin undanfarin tvö ár en fær nú harðari samkeppni en oft áður.

Joakim Noah, miðherji Chicago Bulls, hefur verið að spila mjög vel og er einn af þeim sem fær að heyra MVP-sönginn úr stúkunni. Noah hefur sýna skoðun á því hvor þeirra LeBron James eða Kevin Durant sé mikilvægasti leikmaður deildarinnar.

„Það þarf að hafa mikið fyrir honum og menn eiga að fá hrós þegar þeir eiga það skilið.  Durant er besti leikmaðurinn í heimi á þessari stundu," sagði Joakim Noah eftir að Kevin Durant og félagar í Oklahoma City Thunder unnu Chicago Bulls.

Kevin Durant var með 35 stig og 12 fráköst í leiknum en hann hefur núna skorað 25 stig eða meira í 32 leikjum í röð. Síðastur til að ná því var Michael Jordan sem skoraði 25 stig eða meira í 40 leikjum í röð tímabilið 1986 til 1987.

Kevin Durant er með 31,8 stig, 7,6 fráköst og 5,5 stoðsendingar að meðaltali í leik en LeBron James er með 26,7 stig, 6,9 fráköst og 6,5 stoðsendingar að meðaltali í leik. James er með hærri skotnýtingu en Durant hittir betur úr þriggja stiga skotum og vítum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×