Körfubolti

NBA í nótt: Philadelphia jafnaði met með 26. tapinu í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Philadelphia 76ers er nú komið í sögubækurnar í NBA-deildinni eftir 26. tap liðsins í röð.

Houston vann Philadelphia, 120-98, þar sem James Harden var með 26 stig, tíu fráköst og tíu stoðsendingar. Það var hans önnur þrefalda tvenna á ferlinum.

Philadelphia reyndi að halda í við Houston í upphafi leiksins en heimamenn stungu af í öðrum leikhluta og litu aldrei um öxl.

Með þessu tapi jafnaði Philadelphia met Cleveland sem tapaði 26 leikjum í röð tímabilið 2010-11. Liðið getur eignast metið með húði og hári á morgun er liðið leikur gegn Detroit.



Portland vann Atlanta, 100-85, en þar með tapaði síðarnefnda liðið enn einum leiknum og gaf þar með eftir í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni í austurdeildinni.

Þetta var fimmta tap Atlanta í röð sem er í áttunda sæti deildarinnar. New York Knicks kemur svo í humátt á eftir.

LaMarcus Aldridge skoraði 25 stig og tók sextán fráköst fyrir Portland sem hafði tapað þremur leikjum í röð.

LA Clippers vann Dallas, 109-103, eftir að hafa verið tíu stigum undir í fjórða leikhluta. Chris Paul skoraði 31 stig fyrir Clippers.

Þá vann Milwaukee sigur á LA Lakers, 108-105, en bæði lið eru í hópi verstu liða deildarinnar í ár.

Úrslit næturinnar:

Atlanta - Portland 85-100

Houston - Philadelphia 120-98

Milwaukee - LA Lakers 108-105

Dallas - LA Clippers 103-109

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×