„Ég er algjörlega á móti því að Reykjavíkurborg gefi lóðir fyrir trúfélög,“ segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon. Þá segir hann að það sé eitthvað sem eigi ekki heima í nútímanum og vill hann sjá þessu breytt.
Úthlutun lóðarinnar í Sogamýri var síðasti áfangi Reykjavíkurborgar í að útvega fjórum trúfélögum lóðir undir tilbeiðsluhús sín en nú þegar hafa farið fram lóðaúthlutanir til Ásatrúarfélagsins, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og búddista. Tillagan um uppbyggingu mosku var samþykkt samhljóða í skipulagsráði og borgarráði á síðasta ári, en í rúm þrettán ár hafa múslimar á Íslandi falast eftir lóð í Reykjavík.
Halldóri finnst staðsetning moskunnar í Sogamýri óheppileg. „Mér fyndist að þetta svæði ætti að vera tekið frá fyrir annað. Það er hjúkrunarheimili þarna rétt hjá og þetta er í íbúðabyggð.“ Þá telur hann að þrátt fyrir að trúfrelsi ríki samkvæmt stjórnarskrá þá dugi það ekki til að réttlæta það að Reykjavíkurborg gefi lóðir á þeim forsendum.
Í september í fyrra óskuðu borgarfulltrúar í borgarráði eftir því að Alþingi endurskoði ákvæði í lögum sem kveða á um að sveitarfélögum sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undirskilja þær gatnagerðarlandi. Lögin hafi verið sett á þeim tíma þegar trúarlíf þjóðarinnar var almennara og einsleitara og meiri sátt ríkti um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga, á þeim forsendum mátti færa rök fyrir því að eðlilegt væri að Reykjavíkurborg léti frá sér, án endurgjalds, lóðir undir kirkjur.
„Ég er algjörlega á móti því að Reykjavíkurborg gefi lóðir fyrir trúfélög“
Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
