Fótbolti

Rossi á góðum batavegi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Giuseppe Rossi, leikmaður Fiorentina, er byrjaður að æfa á nýjan leik eftir alvarleg hnémeiðsli.

Rossi, sem er ítalskur landsliðsmaður, meiddist í janúar síðastliðnum og var þá óttast að hann myndi missa af HM í sumar. Hann var markahæsti leikmaður ítölsku deildarinnar þegar hann meiddist og hafði þá skorað fjórtán mörk í átján leikjum.

Fiorentina mætir Napoli í úrslitaleik ítölsku bikarkeppninnar þann 2. maí og eru forráðamenn liðsins vongóðir um að Rossi geti komið við sögu í leiknum.

Rossi hefur tvívegis slitið krossband í hné, fyrst árið 2011, og var frá í samtals um 20 mánuði vegna þessa. Meiðslin reyndust þó ekki svo alvarleg í þetta skiptið.

Annar sóknarmaður Fiorentina, Þjóðverjinn Mario Gomez, hefur einnig verið frá vegna hnémeiðsla en gæti náð úrslitaleiknum gegn Napoli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×