Körfubolti

LeBron og strákarnir hans hjálpsamir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
Körfuboltakappinn LeBron James og hans fjölskylda lætur verkin tala þegar kemur að því að aðstoða fólk í heimabæ þeirra Akron í Ohio-ríki í Bandaríkjunum. James gefur ekki bara peninga því hann mætir á svæðið þegar þarf að taka til hendinni.

LeBron James, sem er að flestum talinn vera besti körfuboltamaður heims í dag, ákvað á dögunum að snúa aftur heim og semja við Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni. LeBron hefur einnig látið til sín taka í störfum á vegum samfélagsverkefnis síns "Wheels for Education" þar sem hann aðstoðar börn á svæðinu að halda áfram í námi þrátt fyrir erfiðar aðstæður heima fyrir.

LeBron James mætti um helgina ásamt sonum sínum LeBron yngri og Bryce og hjálpuðu þeir feðgar við að rífa niður hús sem er að hruni komið og verður nú endurbyggt. Í húsinu býr sjöttibekkingur sem Góðgerðasamtök Lebrons ætla að koma til aðstoðar. Lebron var með kúbeinið á lofti og reif meðal annars niður stiga og handrið fyrir framan húsið.

Heimsókn Lebrons var að sjálfsögðu mikill viðburður í hverfinu og hún var einnig tekinn upp fyrir þátt Nicole Curtis "Rehab Addict" sem verður sýndur á HGTV-sjónvarpsstöðinni. Þar mun enduruppbyggingu hússins verða fylgt eftir. Fyrirtæki á svæðinu redduðu byggingarefni og öðru sem þarf til að endurgera húsið sem var að hruni komið.

Vinsældir LeBron James í Bandaríkjunum hafa aukist mikið eftir að hann fór heim til Cleveland Cavaliers og þær ættu ekki að minnka við það að sjá hann taka til hendinni til að hjálpa þeim sem minna mega sína í hans bæ.

LeBron James og fjölskylda hans.Vísir/Getty
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×