

Svavar Pálsson, sýslumaðurinn á Húsavík, segist bíða eftir frekari upplýsingum vísindamanna áður en frekari viðbúnaði verði komið á.
Litakóði vegna flugs hefur verið færður upp í rautt.
"Það sem við vitum núna er að við höfum fengið staðfestingu um eldgos í gegnum vefmyndavélar ,“ segir Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar, í samtali við Vísi í nótt en hún var stödd í höfuðstöðvum Veðurstofu Íslands.
Fylgjast má með gangi mála í vefmyndavél Mílu.
Rögnvaldur Ólafsson, stjórnandi í samhæfingarmiðstöð Ríkislögreglustjóra segir að virkni sé mjög lítil í Holuhrauni, norður af Dyngjujökli, þar sem sprungugos hófst skömmu eftir miðnætti. Eðlilegt sé að gosi fylgi sterkir jarðskjálftar.
Jarðskjálftavirkni er komin aftur í samt horf. Hraunrennsli stöðvaðist um fjögur í nótt.
Þetta er rólegt gos akkúrat núna, segir Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, sem er í fjölmiðlateymi Samhæfingastöðvarinnar í Skógarhlíð.
Rögnvaldur Ólafsson sagði að gosins hefði fyrst verið vart á vefmyndavél Mílu en ekki á mælitækjum Almannavarna.