Innlent

Rúmlega fjögur þúsund nemendur eru 25 ára eða eldri

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Heildarfjöldi skráðra nemenda á bóknámsbrautir í aldurshópnum nemur 4,6 prósentum.
Heildarfjöldi skráðra nemenda á bóknámsbrautir í aldurshópnum nemur 4,6 prósentum. Vísir / GVA
Rúmlega sautján prósent nemenda, eða 4.384 nemendur, í framhaldsskólum landsins eru 25 ára eða eldri. Flestir þeirra eru skráðir í Tækniskólann, eða 1.213, en þar eru þeir 48,3 prósent allra nemenda skólans. Þetta kemur fram í svari Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Oddnýjar G. Harðardóttur, þingkonu Samfylkingarinnar.

Til stendur að veita framhaldsskólum ekki lengur fjármagn til að mennta nemendur sem eru 25 ára og eldri. Breytingarnar eru boðaðar í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem er til umfjöllunar á Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að skólarnir fái ekki lengur peninga til að mennta þennan hóp. Það á þó ekki að takmarka aðgang þessa hóps að verknámi, að sögn Illuga.

Aðrir framhaldsskólar sem eru með tiltölulega hátt hlutfall nemenda í þessum aldurshópi eru Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti og Menntaskólinn í Kópavogi. Þar er hlutfall skráðra nemenda 25 ára og eldri á bilinu frá 22,9 prósent til 32,3 prósent.

Sé horft aðeins á þá nemendur sem skráðir eru á bóknámsbrautir er hlutfallið annað. Heildarfjöldi skráðra nemenda á bóknámsbrautir í aldurshópnum nemur 4,6 prósentum.

Fjölbrautarskólinn við Ármúla er með hæsta hlutfall þeirra nemenda en 16,6 prósent nemenda skólans eru 25 ára og eldri á bóknámsbraut. Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu er með litlu lægra hlutfall bóknámsbrautanemenda í aldurshópnum, eða 16,4 prósent. Bak við þá tölu eru hinsvegar mun færri nemendur en í FÁ, eða 29.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×