Innlent

Met­fjöldi út­kalla þyrlu­sveitar Gæslunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Útköll á sjó voru um fimmtungur allra útkalla þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.
Útköll á sjó voru um fimmtungur allra útkalla þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar. Vísir/Vilhelm

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist metfjölda útkalla árið 2024 en alls var sveitin þá kölluð út 334 sinnum. Um er að ræða 31 útkalli meira en árið 2023.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að af útköllunum 334 hafi 135 verið farin á fyrsta forgangi og 150 á öðrum forgangi.

„Ríflega helmingur útkallanna voru vegna sjúkraflutninga eða um 183 útköll. Sjúkraflutningum á landi og sjó fjölgaði um tæplega 14% frá fyrra ári þegar farið var í 161 sjúkraflutning. 85 útköll voru vegna leitar eða björgunar. Eins og áður voru flest útköllin á Suðurlandi eða um þriðjungur allra útkalla síðasta árs. Einnig var nokkur fjöldi vegna útkalla sem tengdust jarðhræringunum á Reykjanesi.

Útköll á sjó voru um fimmtungur allra útkalla þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.

Þyrluútköllum hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum áratug og til samanburðar má nefna að árið 2016 voru útköllin 253,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×