Körfubolti

Sjötti sigur Cavaliers í röð | Duncan með þrefalda tvennu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Allt á uppleið hjá LeBron James og félögum
Allt á uppleið hjá LeBron James og félögum vísir/ap
LeBron James fór fyrir Cleveland Cavaliers sem vann sjötta leik sinn í röð í NBA körfuboltanum í Bandaríkjunum í nótt þegar liðið lagði Toronto Raptors örugglega 105-91.

Ekki eru tvær vikur síðan Raptors skellti Cavaliers og LeBron James lýsti því yfir að lið Cavaliers væri brothætt. Mikið getur gerst á tveimur vikum í NBA og lítur Cavaliers mun betur út nú. Liðið hefur unnið sex leiki í röð.

James skoraði 24 stig fyrir Cavaliers, gaf 13 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Tristan Thompson skoraði 21 stig og tók 14 fráköst og Kevin Love skoraði 15 stig líkt og Kyrie Irving.

Amir Johnson skoraði 27 stig fyrir Raptors og Kyle Lowry 22.

Kemba Walker tryggði Charlotte Hornets 103-102 sigur á New York Knicks þegar hann setti niður sniðskot um leið og tíminn rann út. Hornets hafði tapað 10 leikjum í röð.

Lítið gengur hjá New York Knicks sem hefur aðeins unnið 4 leiki ot tapað 17. Hornets hefur unnið einum leik meira.

Tim Duncan varð í nótt næst elsti leikmaður NBA til að ná þrefaldri tvenna þegar hann skoraði 14 stig, gaf 10 stoðsendingar og tók 10 fráköst í 107-101 sigri meistara San Antonio Spurs á Memphis Grizzlies. Aðeins Karl Malone hefur afrekað þetta eldri að árum.

Manu Ginobili var stigahæstur hjá Spurs með 17 stig og Danny Green skoraði 16 stig. Marc Gasol skoraði 28 stig fyrir Grizzlies. Mike Conley skoraði 23 og Tayshaun Prince 20.

Houston Rockets marði Minnesota Timberwolves 114-112 í framlengdum leik. James Harden fór á kostum í leiknum og skoraði 38 stig. Shabazz Muhammad skoraði 20 stig fyrir Timberwolves.

Ekki var minni spenna þegar Sacramento Kings lagði Indiana Pacers 102-101 í framlengdum leik. Rudy Gay skoraði 27 stig fyrir Kings sem hefur unnið 10 af 19 leikjum sínum.



Öll úrslit næturinnar:

Charlotte Hornets – New York Knicks 103-102

Philadelphia 76ers – Oklahoma City Thunder 91-103

Washington Wizards – Denver Nuggets 119-89

Boston Celtics – Los Angeles Lakers 113-96

Brooklyn Nets – Atlanta Hawks 75-98

Toronto Raptors – Cleveland Cavaliers 91-105

Memphis Grizzlies – San Antonio Spurs 101-107

Minnesota Timberwolves – Houston Rockets 112-114

Dallas Mavericks – Phoenix Suns 106-118

Milwaukee Bucks – Miami Heat 109-85

Utah Jazz – Orlando Magic 93-98

Sacramento Kings – Indiana Pacers 102-101

Þreföld tvenna Tim Duncan: VARIÐ: Walker klárar Knicks:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×