Innlent

Telur ómögulegt að borga hótel fyrir þá sem verða strandaglópar á flugvöllum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Mismunandi túlkun er hjá Örnum og Flugfélagi Íslands. Mynd úr safni.
Mismunandi túlkun er hjá Örnum og Flugfélagi Íslands. Mynd úr safni. Vísir/Pjetur
Flugfélagið Ernir telur að réttur farþega til aðstoðar falli niður þegar vont veður verður til þess að fresta þurfi flugi. Það stangast á við svör Samgöngustofu við fyrirspurn Vísis um málið. Samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands fá farþegar þar gistingu og mat ef flug fellur niður.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu er það aðeins bótaréttur farþega sem fellur niður þegar flugi er aflýst vegna óviðráðanlegra orsaka. Vont veður er talið óviðráðanleg orsök. Það takmarkar þó ekki rétt farþega til að fá gistingu og mat greiddan af flugfélaginu á meðan beðið er eftir nýju flugi.

„Þar erum við ekki á sama máli. Ef að það ætti að fara að bæta slíkt í íslensku veðurfari þá væri ekkert innanlandsflug,“ segir Ásgeir Örn Þorsteinsson, sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins Ernis. Hann segir það vera túlkun flugfélagsins á reglunum og að ekki hafi verið haft samráð við Samgöngustofu um þá túlkun.

Saga fjölskyldu sem lenti í því að vera strandaglópar í Reykjavík vegna niðurfellinga á flugi til og frá borginni í óveðri síðustu daga hefur vakið athygli á Facebook. Ásgeir segir aðeins einn farþega hafa kvartað til þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×