Viðskipti erlent

Mikil verðbólga í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Verðbólga hækkar sífellt í Rússlandi og lækkandi verð rúblunnar hefur leitt til þess að Rússar sanka að sér mat og taka peninga sína út úr bönkum. Á árinu hefur matarverð hækkað um 25 prósent í Rússlandi og trú á framtíð efnahags landsins hefur dvínað.

Á vef Business Insider kemur fram að ástæða verðhækkana sé að þegnar Rússlands safni nú mat. Ekki mun vera skortur á matvörum í landinu en Rússar hafa áhyggjur af því að nágrannar þeirra fari að safna mat og vilja vera á undan þeim.

Einn íbúi Moskvu segir að hraðbankar borgarinnar tæmist reglulega þar sem íbúar vilji skipta rúblum út fyrir dollara eða vilji eyða peningum sínum áður en verðgildi þeirra lækkar frekar.

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Rússlands hefur verð á hveiti hækkað um 5,7 prósent. Þá hefur verð á eggjum, tómötum, gúrkum og kálhausum hækkað um 4,3 til 6,2 prósent. Þessar hækkanir hafa leitt til aukinnar verðbólgu, en Seðlabanki Rússlands segi hana hafa verið 9,4 prósent í síðasta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×