Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, skrifar um fornminjarnar og missi þeirra á bloggi sínu í gær og er gagnrýninn. Hann vill meina að uppgröfturinn hafi afhjúpað minjarnar og þær hafi verið skildar eftir óvarðar. „Ef aldrei hefði verið ráðist í þessar aðgerðir þá hefðu þessar minjar varðveist í jörðu. Jörðin geymir best. Það er algjörlega á ábyrgð fornleifafræðinganna að þessar minjar spilltust og fóru í hafið,“ skrifar Haraldur.
Lilja Björk segir að skemmdirnar séu fjarri því bundnar við blettinn sem rannsóknin nær til. Skemmdirnar séu á svæðinu öllu og því séu fornminjar tapaðar sem eru órannsakaðar með öllu.
„Þetta er á svo stóru svæði og vegna fjárskorts er það takmarkað sem hefur náðst að rannsaka minjar á ströndinni. Rannsóknir til þessa benda til að um verbúðir frá 15.öld sé að ræða, en við höfum þurft að velja hvar við berum niður. Við vitum hins vegar af minjum þarna úti um allt sem eru að brotna í sjóinn, og mikið er farið í þessum veðrum í vetur,“ segir Lilja Björk og bætir við að landrof á staðnum sé ein stærsta ástæðan fyrir því að ráðist var í uppgröft og rannsóknir á Gufuskálum til að byrja með.
Hugsað sem björgunarrannsókn verminja

• Ein af stærstu verstöðvum landsins. Umfangsmiklar fiskveiðar fram á 18.öld.
• Búseta til miðrar 20. aldar.
• Landbrot gríðarlegt á svæðinu. Mjög virkt brot við ströndina. Mannvirki og mannvistarlög hafa horfið hratt á undanförnum árum. Vindrof 5 til 9 metrar á milli 1984 og 2013.
• Rannsóknin á Gufuskálum var hugsuð sem björgunarrannsókn verminja.Þegar hafa fundist
• Fjölmargir hlutir hafa þegar fundist á Gufuskálum sem hver og einn segir sína sögu. Má nefna hvalbein, taflmann, lýsislampa eða ausu, hníf beinnálar og fleira smálegt.