Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem vísindamenn frá Stokkhólmsháskóla, Háskólanum á Akureyri, Háskóla Íslands, King Abdullah University of Science and Technology í Sádi-Arabíu , Gautaborgarháskóla, Landsvirkjun og Karolínsku stofnuninni í Stokkhólmi, standa að. Fjallað er um rannsóknina í hinu virta vísindariti Nature Geoscience.
![](https://www.visir.is/i/03DEED2D1D184FCCD7F7044690CEF161CB3868D4EE0380AFA89C31FDC85B3737_390x0.jpg)
Rannsóknartíminn er mun lengri en í fyrri rannsóknum af svipuðum toga, en á þessu tímabili urðu nokkrir stórir skjálftar á Húsavíkur–Flateyjar brotabeltinu og á brotabelti kenndu við Grímsey.
Að sögn Árnýjar sýna rannsóknirnar að tveimur til sex mánuðum fyrir stóra jarðskjálfta tók að bera á breytingum í jarðhitavatninu í Hafralæk og náðu þær hámarki fyrir stærstu skjálftana.
Árný segir að ekkert sé fullyrt um að niðurstöður rannsóknarinnar hafi ótvírætt forspárgildi um stóra jarðskjálfta, en breytingarnar í efnafræði vatnsins sem sagt er frá í greininni séu hins vegar vissulega marktækar.
„Það sem vekur áhuga er að þessar niðurstöður gætu nýst í samhengi við aðrar rannsóknir við að spá fyrir um stóra atburði. Þarna gæti verið komið eitt, og jafnvel mikilvægt, púsl í að rannsaka breytingar sem verða í jarðskorpunni fyrir stóra skjálfta.“
Annars staðar í heiminum hafa verið stundaðar áþekkar rannsóknir, en sérstaða rannsókna við Hafralæk felst í því hversu lengi þær stóðu yfir, eða frá árinu 2008 til 2013. Allt þetta tímabil voru sýni tekin úr borholunni vikulega.
Spurð um framhald rannsóknarinnar segir Árný: „Sýnasöfnun er enn í gangi og það verður áhugavert að skoða gögnin okkar með tilliti til jarðhræringanna í Bárðarbungu. Það verður mjög spennandi viðbót við öll önnur jarðvísindaleg gögn sem eru að safnast upp þessa dagana.“