Þessi ógn hefur haft í för með sér aukna eftirspurn eftir rafstöðvum hér á landi. „Við finnum fyrir aukinni eftirspurn og það eru ýmis fyrirtæki sem eru að versla, bæði birgjar og hjálparstofnanir,“ segir Kristófer S. Snæbjörnsson, sölustjóri véla- og tækjadeildar hjá Merkúr, sem er fyrirtæki sem selur meðal annars rafstöðvar.

Hann segir algengast að verið sé að spyrja um minni og meðalstórar rafstöðvar sem eru í kringum 30 kílóvött. „Þessar minni og meðalstóru rafstöðvar geta bjargað tölvukerfi í miðlungsstóru fyrirtæki. Menn hafa greinilega varann á enda er það mun skynsamlegra ef við lendum í einhverju veseni,“ bætir Kristófer við.
Fyrirspurnirnar koma víðs vegar að og meðal annars frá fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Að undanförnu hefur þó mikið borið á fyrirspurnum frá fyrirtækjum á Suðausturlandi.