Körfubolti

LeBron James þurfti að komast í góða veðrið í Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
LeBron James hefur ekkert spilað með Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni að undanförnu en besti körfuboltamaður heims er að ná sér góðum af hné- og bakmeiðslum sem hafa plagað hann.

LeBron James hefur ekkert verið í fríi þrátt fyrir að missa af leikjum og æfingum Cleveland-liðsins því hann er búinn að vera í endurhæfingu þrisvar til fjórum sinnum á dag.

Læknarnir "bönnuðu" LeBron James þó að sitja á bekknum í leikjum liðsins því það þótti ekki gott fyrir bakið hans. James  fór því ekki með í útileiki á móti Charlotte og Philadelphia og var heldur ekki á bekknum í heimaleik á móti Dallas Mavericks eða í leiknum á móti Houston Rocktes.

LeBron James nýtti hinsvegar tækifærið og fékk að fara suður til Miami til að komast í heitara veður enda frostið mikið norður í Cleveland þessa dagana.

„Það hjálpar að við erum að fara að spila í heitari borgum því skrokkurinn minn hefur gott af því," sagði LeBron James um komandi útivallartörn Cleveland-liðsins á Vesturströndinni.

„Þetta er allt að koma. Vika eitt er að baki og það er ein vika eftir. Ég er á réttri leið og mér líður betur með hverjum deginum," sagði LeBron James sem hefur aldrei verið svona lengi frá á ferlinum.

„Ég hata að missa af leikjum og það sést vel á ferilsskránni minni. Þetta hefur því verið erfitt fyrir mig en ég varð bara að hlusta á líkamann," sagði James.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×