Körfubolti

Skvettubræður og Kyle Korver í þriggja stiga keppninni í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry og Klay Thompson.
Stephen Curry og Klay Thompson. Vísir/Getty
Þriggja stiga skotkeppnin á Stjörnuhelgi NBA-deildarinnar í körfubolta verður stjörnum prýdd en nú er orðið ljóst hvaða leikmenn ætla að taka þátt að þessu sinni.

Heitasta bakverðaparið í deildinni, Skvettubræðurnir frá Golden State Warroirs, Stephen Curry og Klay Thompson, ætla báðir að vera með sem og besta þriggja stiga skytta deildarinnar, Kyle Korver hjá Atlanta Hawks.

Allir þrír eru frábærar skyttur. Stephen Curry skoraði tíu þrista og 41 stig í sigri á Dallas á miðvikudagskvöldið, Klay Thompson skoraði 9 þrista og 37 stig í einum leikhluta á móti Sacramento á dögunum og Kyle Korver er með bestu þriggja stiga nýtinguna í deildinni en hann hefur hitt úr 53,2 prósent þriggja stiga skota sinna.

Hinir leikmennirnir sem höfðu tilkynnt um þátttöku eru þeir James Harden hjá Houston Rockets, Kyrie Irving hjá Cleveland Cavaliers, Wesley Matthews hjá Portland Trailblazers, J.J. Redick hjá Los Angeles Clippers og Marco Belinelli hjá San Antonio Spurs sem hefur titil að verja. Kyrie Irving vann keppnina hinsvegar árið á undan

Þriggja stiga keppnina fer fram laugardaginn 14. febrúar í Barclays Center í Brooklyn en Stjörnuleikurinn er síðan spilaður í Madison Square Garden kvöldið eftir.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×