Körfubolti

Einni bestu körfuboltakonu heims borgað fyrir að hvíla sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diana Taurasi er mjög litríkur og skemmtilegur leikmaður.
Diana Taurasi er mjög litríkur og skemmtilegur leikmaður. Vísir/Getty
Diana Taurasi hefur verið lengi ein af bestu körfuboltakonum heims og það er setið um starfskrafta hennar allt árið um kring. Nú hefur hún hinsvegar ákveðið að segja stopp og taka sér hvíld næsta sumar.

Diana Taurasi hjálpaði Phoenix Mercury að vinna WNBA-deildina á síðasta ári en tilkynnti í gær að hún ætli ekki að spila með liðinu á næsta WNBA-tímabili.

Bestu körfuboltakonur heims spila í WNBA-deildinni á sumrin og svo í Evrópu á veturna og þær fá því lítið sem enga hvíld því um leið og annað tímabilið endar þá byrjar hitt.  

Taurasi spilar á veturna með rússneska liðinu UMMC Ekaterinburg og þar fær hún megnið að árslaunum sínum því hún fær ekki nærri því eins mikið borgað fyrir að spila í WNBA.

Rússarnir vildu að Taurasi kæmi úthvíld inn í næsta tímabil í Rússlandi og voru því tilbúnir að borga henni meira en WNBA-lið hennar hefði gert ef Taurasi hefði spilað næsta sumar. Hún ákvað að taka tilboði þeirra og sagðist í bréfi til stuðningsmanna Phoenix Mercury vera að hugsa um sig og sína fjölskyldu.

Þetta er mikið áfall fyrir Phoenix Mercury en Diana Taurasi var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar þar sem hún var með 21,9 stig og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í leik. Það er líka mikið áfall fyrir WNBA-deildina að missa einn sinn allra besta leikmann.

Diana Taurasi er 32 ára gömul og hefur spilað með Phoenix Mercury frá 2004. Hún hefur verið í herbúðum UMMC Ekaterinburg frá 2012.

Það spilar líka inn í þetta að framundan eru Ólympíuleikar í Ríó 2016 þar sem hún getur unnið sitt fjórða Ólympíugull en hún var í sigurliði Bandaríkjanna 2004, 2008 og 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×