Körfubolti

27 leikja sigurganga Brynjars endaði í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson. Vísir/Stefán
Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, tapaði í gær sínum fyrsta deildarleik í þrettán mánuði þegar KR-ingar fóru tómhentir heim frá Ásvöllum eftir þriggja stiga tap fyrir Haukum.

Þetta var aðeins annað deildartap KR-liðsins á tímabilinu en Brynjar Þór var ekki með þegar KR tapaði fyrir Tindastól á Sauðárkróki 22. janúar síðastliðinn.

KR vann 23 deildarleiki í röð fyrir tapið í Síkinu og Brynjar Þór var með í þeim öllum. Hann var líka búinn að spila síðustu fjóra leiki liðsins sem KR vann alla þar á meðal tvo þá síðustu naumlega eftir góðan endasprett.

Brynjar Þór Björnsson gerði reyndar sitt til að reyna að halda sigurgöngunni áfram í gærkvöldi því hann skoraði 29 stig í leiknum þar af setti hann niður sjö þriggja stiga körfur.  

Haukarnir héldu hinsvegar út og tryggðu sér sigurinn sem þýðir að Brynjar tapaði sínum fyrsta deildarleik síðan 9. janúar 2014 en þá tapaði KR fyrir Grindavík í DHL-höllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×