Lengi hefur vantað fleiri stóra en þó færanlega menn í íslenska liðið, hvort sem er að spila vörn eða sókn. Hlynur hélt sig þó við körfuboltann og fór fyrir íslenska liðinu sem komst á stórmót í fyrsta sinn síðasta haust.
Kristján Arason, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta, tók hugmynd Ólafs upp á næsta þrep á súpufundi FH-inga í dag þar sem hann messaði yfir sínum félagsmönnum.
Hann vill fá sterkasta mann Evrópu og næst sterkasta mann heims, Hafþór Júlíus Björnsson, í íslenska landsliðið í handbolta.
„Ég fylgdist vitaskuld vel með HM í handbolta og þar var mikil umræða um línumanninn hjá Katar sem skipti úr körfubolta yfir í handbolta árið 2011,“ segir Kristján í samtali við Vísi.
![](https://www.visir.is/i/FD1156097B663CFADC8CB3F88358D6EC1C49C24A12F4722F031EA1B64B0FD575_390x0.jpg)
Vidal fór á kostum á mótinu með Katarliðinu sem var fyrsta Asíuliðið til að komast í úrslitaleik HM í handbolta.
„Maður fór að hugsa til orða Óla Stef um Hlyn Bærings á sínum tíma. Ég fór að hugsa um leikmenn sem gætu skipt yfir og körfuboltamenn hafa auðvitað mikinn bolta í sér og oft mikla hæð,“ segir Kristján, en Hafþór Júlíus er fyrrverandi unglingalandsliðsmaður í körfubolta.
„Mér datt Hafþór í hug. Ég er nýbúinn að horfa á þættina [um sterkasta mann heims, innsk. blm] og hugsaði með mér að það gæti verið gaman að setja þetta fram. Hann fékk reyndar líka tilboð til að spila í ameríska fótboltanum.“
„Hafþór myndi ekki þurfa nema nokkrar vikur eða mánuði til að verða góður línumaður. Það væri ekki slæmt að hafa svona mann við hliðina á sér í vörninni. Það er bara skuggi þar sem hann stendur, hann er svo stór. Með smá þjálfun gæti svona maður komist í landsliðsklassa,“ segir Kristján.
![](https://www.visir.is/i/3560A86C1D58166AF6F7D34DD4EFEE749C7A91DD584D363A334CBB639ECE99A6_713x0.jpg)
„Þetta er að breytast þannig að allir línumenn eru orðnir 200 cm og 110 kg og eru góðir í vörn. Vandamálið hjá okkur er að þeir línumenn sem eru bestir í sókn spila ekki vörn og þeir sem spila vörn eru ekki góðir á línu,“ segir Kristján.
„Alltaf þegar Vidal fékk boltann var mark eða vítakast. Það er rosalega erfitt að stoppa svona mann. Maður hefur líka horft til margra snillinga í NBA-körfunni í gegnum tíðina. Þar eru nú margir sem myndu gjörsamlega slá í gegn í handboltanum,“ segir Kristján Arason.
Hafþór hefur það gott í aflraunabransanum þar sem hann er einn sá allra besti. Afrek hans þar hafa skilað honum hlutverki í þáttum á borð við Game of Thrones þannig líkurnar á að hann taki upp handboltann eru ekkert svakalegar.
„Þetta er allavega áskorun á hann,“ segir Kristján léttur í bragði. „Það væri gaman að heyra hvernig honum líst á þetta. Það er allavega laus línumannsstaða í FH-liðinu.“