Körfubolti

Pavel nær úrslitakeppninni | Rifan í lærinu fundin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Vísir/Þórdís Inga
Pavel Ermolinskij mun ekki vera með KR-liðinu í þremur síðustu leikjum liðsins í Dominos-deildinni samkvæmt frétt á heimasíðu KR en þar kemur einnig fram að að hann ætti að geta spilað með KR-liðinu í úrslitakeppninni.

Eftir læknisskoðun í dag er loks komið í ljós hvers eðlis meiðslin eru sem Pavel Ermolinskij varð fyrir í bikarúrslitunum gegn Stjörnunni.

Það hefur greinst smá rifa í vöðva aftan á lærinu. Hún er á „góðum stað” og á að gróa á fjórum vikum samkvæmt læknisráði. Hann verður því að öllum líkindum orðinn leikfær þegar úrslitakeppnin hefst.

Þetta eru góðar fréttir fyrir KR-inga þar sem menn í Vesturbænum voru búnir að búa sig undir það versta, sérstaklega í ljósi þess að erfitt reyndist að greina meiðslin almennilega.

Pavel missir því af leikjunum þremur sem eftir eru í Dominos-deildinni, gegn Stjörnunni í kvöld, Þór Þorlákshöfn á sunnudaginn í DHL-höllinni og Fjölni í Dalhúsum eftir viku.  

Úrslitakeppnin hefst 19-20 mars og ætti Pavel að verða leikfær þegar að henni kemur, ef allt gengur að óskum.

Pavel Ermolinskij endar því tímabilið með þrefalda tvennu að meðaltali en hann er með 13,3 stig, 10,5 fráköst og 10,3 stoðsendingar að meðaltali í fimmtán leikjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×