Körfubolti

Stálust til að taka óviðeigandi myndir af LeBron James

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
Leikmenn í NBA-deildinni eru langt frá því að vera sloppnir frá fjölmiðlamönnum þótt að þeir séu komnir inn í búningsklefa liðsins en hefð er fyrir því að NBA-deildin leyfi blaðamönnum að taka viðtöl við leikmenn í klefanum.

Blaðamenn mega taka sjónvarpsviðtöl í klefanum en það má ekki taka neinar ljósmyndir, hvorki á myndavélar eða síma. Atburðir síðustu daga í kringum Cleveland Cavaliers eru kannski fyrstu skrefin í átt að því að klefanum verði endanlega lokað fyrir fjölmiðlamönnum.

LeBron James er einn allra besti körfuboltamaður heims og því eftirsóttur í viðtöl í kringum leiki Cleveland liðsins.

Cleveland.com segir frá því að ósvífnir blaðamenn hafi ítrekað reynt að ná myndum af fáklæddum LeBron James þegar hann þurfti að sinna skyldum sínum við fjölmiðla.

Tvisvar lenti LeBron James nefnilega í því að blaðamenn reyndu að taka myndir af honum þegar hann var bara á handklæðinu og upptekinn við að tala við aðra fjölmiðlamenn.

„Þetta er ekki svalt. Ég missi af engu," sagði LeBron James við viðkomandi blaðamann þegar hann sá hinn sama smella af honum mynd eftir leik á móti Orlando Magic.  Blaðamaðurinn neitaði hinsvegar sök og sagðist ekki hafa tekið neina mynd.

Þetta gerðist einnig eftir leik á móti Miami Heat en þá reyndu tveir blaðamenn að ná óviðeigandi myndum af LeBron James áður en öryggisverðir mættu á svæðið og vísuðu þeim á dyr.

Margir blaðamenn hafa einnig verið gagnrýndir fyrir það að glápa meira á leikmenn en að spyrja þá spurning þegar þeir eru mættir í klefann.  Það er því hætta á því að vera blaðamanna í búningsklefanum heyri bráðum sögunni til.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×