Körfubolti

Sænsk körfuboltakona valin önnur í nýliðavali WNBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Amanda Zahui spilar með Tulsa Shock.
Amanda Zahui spilar með Tulsa Shock. Vísir/AP
Amanda Zahui var valin önnur í nýliðavali WNBA-deildarinnar í gær en þessi 21 ára sænski miðherji var búinn með tvö ár í Minnesota-skólanum en ákvað að gefa kost á sér í deild þeirra bestu.

Amanda Zahui hefur spilað upp öll yngri landsliðin í Svíþjóð en hún fær nú tækifæri til að spila með WNBA-liðinu Tulsa Shock.

Amanda Zahui er fædd árið 1993 en hún er 195 sentímetrar á hæð. Hún var með 16,9 stig og 12,2 fráköst að meðaltali á háskólaferlinum.

Sænski miðherjinn átti mjög gott tímabil en það vakti athygli þegar hún sagði frá því að hún hafi hætt að borða uppáhalds sænska súkkulaðið sitt á nýloknu tímabili til að geta komist í betra form.  

Amanda Zahui og Jewell Loyd, sem var valin fyrst af Seattle Storm, ákváðu báðar að hætta snemma í skóla en það hefur ekki verið eins algengt hjá konunum og körlunum.  

„Ég og Jewell erum einstakir leikmenn. Allar sem vilja hætta í skóla verða að vera vissar og passa upp á það að þær verði ánægðar. Þetta er yndisleg tilfinning," sagði Amanda Zahui við ESPN.

Amanda Zahui hefur dregið sig út úr EM-hópi Svía vegna þess að WNBA-deildin er spiluð á sumrin en sænska körfuboltasambandið lifir enn í voninni um að hún geti spilað með landsliðinu á EM í Ungverjalandi og Rúmeníu í júní.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×