Körfubolti

Aðeins fjórði erlendi þjálfarinn sem kemur liði í lokaúrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Israel Martin fagnar hér sætinu í lokaúrslitunum.
Israel Martin fagnar hér sætinu í lokaúrslitunum. Vísir/Stefán
Israel Martin, spænski þjálfarinn hjá Tindastól, kom sínum mönnum í gær í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn þegar liðið sló Hauka út úr undanúrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta.

Tindastóll vann einvígið 3-1 og hefur þar með unnið 6 af 7 leikjum sínum í úrslitakeppninni í ár en Stólarnir eru nýliðar í deildinni.

Israel Martin varð aðeins fjórði erlendi þjálfarinn sem kemur liði í lokaúrslit í þriggja áratuga sögu úrslitakeppni úrvalsdeildar karla.

Bandaríkjamaðurinn Jon West var sá fyrsti en undir hans stjórn fóru Valsmenn í lokaúrslitin árið 1987 eftir að hafa slegið Keflavík út í undanúrslitunum.

Ungverjinn Laszlo Nemeth kom KR í lokaúrslitin tvö ár í röð, 1989 og 1990, en seinna árið varð KR-liðið Íslandsmeistari.

Bandaríkjamaðurinn Geof Kotila var síðastur á undan Israel Martin til að fara með lið í úrslitin en undir hans stjórn komust Snæfellingar í lokaúrslitin 2008 þar sem liðið tapaði fyrir Keflavík.



Erlendir þjálfarar sem hafa komið liðum í lokaúrslitin:

Israel Martin, Tindastóll 2015

Mæta KR eða Njarðvík

Geof Kotila, Snæfell 2008

2. sæti, 0-3 tap fyrir Keflavík

Laszlo Nemeth, KR 1990

Íslandsmeistari, 3-0 sigur á Keflavík

Laszlo Nemeth, KR 1989

2. sæti, 1-2 tap fyrir Keflavík

Jon West, Valur 1987

2. sæti, 0-2 tap fyrir Njarðvík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×