Eyjólfur Kristjánsson, höfundur og annar flytjandi Nínu, segist trúa því að framlag Íslands í Eurovision í ár verði eitt af þremur efstu lögunum. Hann hefur þó ekki heyrt hin lögin sem keppa. Þetta sagði hann í nýjasta þætti Eurovísis.
„Ég er ekki búinn að heyra eitt einasta lag nema íslenska lagið,“ sagði hann en bætti við að hann hefði sterka tilfinningu fyrir framlagi Íslands í keppninni í ár. „Það er eitthvað við þetta lag sem smellpassar inn í þessa keppni.”
Eyfi segir að ef María negli lagið á sviðinu verði hún í góðum málum. „Ég held að hún þurfi nú ekki að hafa neinar áhyggjur, hún er það sæt og fer nú bara langt á krúttlegheitunum,“ segir hann og hlær.
Reynir segir að hann hafi ekki heyrt gæðin í laginu fyrr en hann heyrði hana syngja lagið í eigin persónu; hann hafi ekki fílað hljóðversupptökuna. „Ég skil ekki af hverju er verið að auto-tune-a svona góða söngkonu,“ segir hann.
„Um leið og ég sé hana og heyri röddina, hvað hún er með flotta popp-söngrödd, þá lifnaði það við,“ segir hann og bætir við að hann hafi fengið gæsahúð við að hlusta á flutninginn í eigin persónu. „Hún er sterkasti hlekkurinn í þessari keðju.“
„Ég er sammála Eyfa, ég held að hún verði mjög ofarlega og ég held að hún og Rússland verði einu stelpurnar sem verða þarna inn á topp fimm eða sex,“ segir hann.
Lífið