Sænska söngkonan Sanna Nielsen, sem keppti fyrir hönd Svía í Eurovision á síðasta ári, segir norska lagið vera eina norræna lagið í keppninni í ár sem hafi hreyft við sér. „Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá man ég ekki almennilega eftir hinum.“
Þetta segir Nielsen í samtali við sænska ríkissjónvarpið þar sem hún ræðir keppnina í ár og hvaða lög komi til með að veita Svíanum Måns Zelmerlöw mesta keppni.
Nielsen lenti sjálf í þriðja sæti í keppninni í fyrra með lagið Undo, auk þess að hafa margoft áður tekið þátt í sænsku undankeppninni, Melodifestivalen. Þá var hún annar þáttastjórnenda sænsku undankeppninnar í ár og mun lýsa því sem fyrir augum ber í sænska ríkissjónvarpinu.
Sjá einnig:Loksins komst Sanna í Eurovision
Nielsen segir að mestu keppinautar Zelmerlöv í keppninni í kvöld séu annars vegar Slóvenía og svo Noregur.
Hún segir þó að þau lög sem líklegust séu til að vera í baráttu við Zelmerlöv um sigur muni bíða hans á laugardaginn.
Sjálf telur hún Ástrali mjög líklega til að landa sigri. „Guy [Sebastian] er með virkilega flott lag, lítur út fyrir að öruggur á sviði og er greinilega hörkusöngvari. Auk þess er hann hógvæg og viðkunnanlegur og honum mun örugglega ganga mjög vel.“
Hvaða Eurovision-lög eru best þetta árið? Taktu þátt í könnun Vísis hér.

