Körfubolti

J.R. Smith sjóðheitur þegar Cleveland tók forystuna | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
J.R. Smith var sjóðheitur í nótt.
J.R. Smith var sjóðheitur í nótt. vísir/getty
Cleveland Cavaliers tók forystuna í einvíginu við Atlanta Hawks í úrslitum Austurdeildar NBA með átta stiga sigri, 89-97, í fyrsta leik liðanna í nótt.

Lebron James fór fyrir liði Cleveland með 31 stigi, átta fráköstum og sex stoðsendingum. James var sérstaklega öflugur í 2. leikhluta þar sem hann skoraði 14 stig og setti sjö af níu skotum sínum niður.

Staðan var jöfn í hálfleik, 51-51, en Cleveland náði frábærum kafla undir lok 3. leikhluta og í byrjun þess fjórða, þar sem liðið gerði 22 stig gegn aðeins fjórum hjá Atlanta.

J.R. Smith fór mikinn á þessum kafla en hann átti frábæran leik í nótt; skoraði 28 stig, tók átta fráköst og setti niður átta þriggja stiga skot í 12 tilraunum.

Cleveland skoraði 11 fyrstu stig 4. leikhluta og náði 18 stiga forskoti sem Atlanta náði ekki að vinna upp. Lokatölur 89-97, Cleveland í vil.

Jeff Teague var stigahæstur í liði Atlanta með 27 stig en liðið var ískalt fyrir utan þriggja stiga línuna en skotnýting þess fyrir utan var aðeins 17,4%.

Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Atlanta fór DeMarre Carroll meiddur af velli þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum og kom ekki meira við sögu. Óvíst er hversu alvarleg meiðslin eru.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×