Fótbolti

Pescara komst ekki upp

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gianluca Sansone fagnar markinu sem kom Bologna upp í kvöld.
Gianluca Sansone fagnar markinu sem kom Bologna upp í kvöld. Vísir/Getty
Pescara leikur ekki í ítölsku A-deildinni að ári en til þess þurfti liðið að vinna Bologna í síðari leik liðanna í úrslitum umspilskeppni B-deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 1-1 jafntefli en þeim fyrri með markalausu jafntefli. Samkvæmt reglum keppninnar hefur það lið sem endaði ofar í deildarkeppninni betur í einvíginu.

Bologna missti mann af velli með rautt spjald um miðjan síðari hálfleik og þrátt fyrir þungar sóknir Pescara á lokamínútunum náði liðið ekki að skora öðru sinni.

Þar sem Bologna endaði í fjórða sæti en Pescara því sjöunda verður niðurstaðan sú að Bologna leikur í ítölsku úrvalsdeildinni á næsta ári.

Birkir Bjarnason var lykilmaður í liði Pescara í vetur og skoraði tíu mörk í 37 leikjum. Hann var hins vegar kallaður í landslið Íslands fyrir leikinn gegn Tékklandi í undankeppni EM 2016 á föstudag og missti því af leiknum.

Stuðningsmenn Pescara voru æfir vegna þessa og létu reiði sína í ljós á Facebook-síðu KSÍ.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×