Starfsmenn alþjóða knattspyrnusambandsins tóku við mútum þegar ákveðið var að halda heimsmeistaramótið árið 2010 í Suður-Afríku. Chuck Blazer, sem var átti sæti í nefnd þeirri sem ákvað staðsetninguna, hefur staðfest þetta. Fjallað er um málið á BBC.
Þetta er meðal þess sem má heyra á upptökum af yfirheyrslum bandarískra yfirvalda yfir Blazer sem áttu sér stað í New York árið 2013. Þar játar hann að hafa þegið mútur til að keppnin færi fram í Suður-Afríku. Hann telur einnig upp fleiri hátt setta menn innan FIFA sem gerðu slíkt hið sama.
Að auki þáðu mennirnir mútur í tengslum við útsendingar- og sjónvarpsrétti á heimsmeistaramótum og ýmsum keppnum frá 1996 til dagsins í dag. Auk rannsóknar Bandaríkjanna hafa svissnesk yfirvöld hafið rannsókn á hvort svipaðir hættir hafi verið viðhafðir þegar heimsmeistaramótunum 2018 og 2022 voru valdir staðir í Rússlandi og Katar.
Bandarísk yfirvöld handtóku í liðinni viku fjórtán menn og hafa þá grunaða um mútuþægni, peningaþvætti og fjárglæfrastarfsemi. Sjö af mönnunum voru hátt settir innan veggja FIFA, þar af voru tveir varaforsetar. Talið er að fjárhæðirnar nemi allt að 150 milljónum dollara.
Málið varð til þess að Sepp Blatter, forseti FIFA til sautján ára, sagði af sér í fyrradag. Hann hafði verið endurkjörinn forseti síðastliðinn föstudag en lét af embætti þar sem ekki var útlit fyrir að allur knattspyrnuheimurinn styddi áframhaldandi setu hans, eins og hann orðaði það sjálfur.
Játaði margra ára mútuþægni og fjárglæfrastarfsemi

Tengdar fréttir

Sætir Blatter rannsókn hjá FBI?
ABC News í Bandaríkjunum telur að Sepp Blatter sé í hópi þeirra sem liggi undir grun fyrir spillingu.

Styrktaraðilar FIFA fagna brotthvarfi Blatter
Visa, Coca-Cola og McDonald's segja brýnt að frekari umbætur verði gerðar innan FIFA.

Frábær dagur fyrir fótboltann að Blatter sé farinn | Forsíður ensku blaðanna
Sepp Blatter sagði óvænt af sér sem forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins í gær.