Körfubolti

Kóngarnir af Akron

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Golden State er í kjörstöðu til að tryggja sér fyrsta NBA-titilinn í 40 ár.
Golden State er í kjörstöðu til að tryggja sér fyrsta NBA-titilinn í 40 ár. vísir/getty
LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers eru komnir upp að vegg eftir tvö töp í röð í úrslitum NBA-deildarinnar í körfubolta og Golden State Warriors geta kórónað magnað nýliðatímabil þjálfarans Steve Kerr með því að tryggja sér langþráðan NBA-titilinn með sigri í sjötta leiknum sem fer fram í Quicken Loans-höllinni og verður í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld.

Það er ekkert skrýtið að körfuboltaspekingar jafnt sem körfuboltaáhugafólk hafi stillt upp þessum lokaúrslitum í ár sem einvígi á milli LeBrons James og Stephens Curry sem eru án vafa einstakir leikmenn í sögu NBA og eiga ótal met sem sanna þá fullyrðingu. Styrkur, leikskilningur, sprengikraftur og stöðugar framfarir LeBrons James hafa fyrir löngu gert hann að besta körfuboltamanni heims en á móti kemur að heimurinn hefur líklega aldrei áður séð skotmann eins og hinn 191 sentímetra háa Stephen Curry.

Það að leikmaður geti rakið boltann betur en flestir í deildinni, búið til skotið sitt upp úr engu og sé fljótari en flestir að skjóta boltanum þegar færið gefst er einstakt í körfuboltadeild þeirra bestu í heimi alveg eins og maður byggður eins og ruðningskappi sem hefur boltameðferð og hraða bakvarðar í bland við sendingagetu bestu leikstjórnenda.

Curry leggur boltann ofan í undir pressu frá James.vísir/getty
Summa Akron City spítalinn

En magnaðasta staðreyndin og jafnvel enn skemmtilegri en öll stigin, allar stoðsendingarnar og öll metin hjá þessum frábæru en ólíku leikmönnum er sú ótrúlega tilviljun að þeir James og Curry komu í heiminn á sama spítalanum í Akron í Ohio-ríki.

LeBron James hefur alla tíð talað stoltur um æskustöðvar sínar í Akron og það er hann sem er nú kominn nær því en nokkur annar að færa Cleveland sinn fyrsta NBA-titil. Það er hins vegar annar körfuboltamaður sem fæddist á Summa Akron City sjúkrahúsinu sem gerir sig nú líklegan til að koma í veg fyrir að draumur LeBrons rætist og vinna sinn fyrsta NBA-titil í næsta nágrenni við þar sem hann fæddist fyrir rúmum 27 árum.

Anthony McClelland og Gloria Marie James eignuðust Lebron James á Summa Akron City spítalanum 30. desember 1984 og þar bjó hann þar til að hann sveik lit og gekk til liðs við Miami Heat sumarið 2010. James varð tvisvar meistari með Miami-liðinu en ákvað að snúa heim fyrir þetta tímabil. Dell og Sonya Curry eignuðust Stephen Curry 14. mars 1988 á sama spítala en Dell Curry og kona hans bjuggu nálægt spítalanum á þessum tíma þegar hann spilaði sitt eina tímabil með Cleveland Cavaliers.+

Ættu að vakta fæðingardeildina

Dell Curry grínaðist með það við blaðamenn fyrir lokaúrslitin að kannski væri ekki óvitlaust fyrir njósnara að fara að leita að framtíðarmönnum á fæðingardeildinni á Summa Akron City spítalanum. Dell Curry spilaði þó bara þetta eina tímabil með Cleveland og eyddi næstu tíu tímabilum hjá Charlotte Hornets.

Það leit þó allt út fyrir að Lebron James væri að fara alla leið með Cleveland-liðið þar sem liðið var komið í 2-1 í einvíginu. Eftir þrjá leiki þar sem Ástralinn Matthew Dellavedova stal sviðsljósinu frá besta leikmanni tímabilsins, Stephen Curry, hefur þessi snaggaralegi skotmaður sýnt snilli sína á ný í síðustu leikjum.

Stephen Curry lék svo sem ekki illa í fyrstu leikjunum en á sama tíma var LeBron James að skila tölum sem enginn hafði áður séð á stærsta sviði NBA-deildarinnar. Það var ekki fyrr en í fjórða leikhlutanum í fimmta leiknum í fyrrinótt þar sem fólk sá af hverju hann var kosinn mikilvægasti leikmaður tímabilsins.

Stephen Curry skoraði 17 af 37 stigum sínum í fjórða leikhlutanum, þar af fimmtán þeirra eftir að Lebron James kom Cleveland í 80-79 þegar sjö mínútur og 47 sekúndur voru eftir af leiknum.

Curry og James eiga margt sameiginlegt.vísir/getty
Rosalegar tölur hjá LeBron

Fram að þessari tæplega átta mínútna sýningu Currys var það allt eins líklegt að Lebron James myndi bæði taka titilinn og útnefninguna besti leikmaður úrslitanna þrátt fyrir að vera nánast einn síns liðs að leiða vængbrotið lið Cleveland sem hefur misst tvo stjörnuleikmenn í meiðsli í úrslitakeppninni.

Frammistaða LeBrons James er þegar komin í hóp þeirra allra bestu í sögu lokaúrslitanna og með sigri í seríunni færi hann langt með að tryggja sér sæti við hlið Michaels Jordan við borð þeirra allra bestu í NBA-sögunni. En ef 40 stiga, 14 frákasta og 11 stoðsendinga leikur er ekki nóg, hvað dugar þá?

Stephen Curry skoraði sjö þrista í síðasta leik og þá alla með varnarmenn Cleveland-liðsins andandi ofan í hálsmálið. Það var ekki nóg því eins og á einnig við um Lebron James þá er nánast ómögulegt að stoppa Stephen Curry þegar hann skiptir í stórstjörnugírinn.

Draumur um úrslitaleik

Hreinn úrslitaleikur um NBA-titilinn væri draumaendir á skemmtilegri seríu og það er ekki annað að heyra en að Lebron James hafi sjálfur trú á þessu ennþá ef marka má viðtal við hann eftir síðasta leik.

„Ég missi aldrei trúna af því að ég er besti leikmaðurinn í heiminum. Leikur sex er á okkar heimavelli og við höfum nóg af vopnum í okkar liði til að vinna hann,“ sagði LeBron James og ef einhver getur komið jafn löskuðu liði og Cleveland í sjöunda leik þá er það kóngurinn af Akron.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×