Körfubolti

Finnur Atli genginn í raðir Hauka

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Finnur Atli Magnússon fer frá Íslandsmeisturunum í Hafnarfjörðinn.
Finnur Atli Magnússon fer frá Íslandsmeisturunum í Hafnarfjörðinn. vísir/valli
Finnur Atli Magnússon, leikmaður Íslandsmeistara KR í Dominos-deild karla í körfubolta, er genginn í raðir Hauka, en hann skrifaði undir eins árs samning við Hafnafjarðarfélagið í dag.

Þetta er góður liðsstyrkur fyrir Hauka sem komust í undanúrslit Dominos-deildarinnar í ár en töpuðu þar gegn verðandi silfurverðlaunahöfum Tindastóls.

Finnur Atli spilaði 31 leik fyrir KR á síðustu leiktíð og skoraði 7,5 stig og tók 4,7 fráköst að meðaltali á þeim 18 mínútum sem hann spilaði í leik.

Hann hóf meistaraflokksferilinn með KR árið 2010 en spilaði eitt ár með Snæfelli veturinn 2013/2014. Finnur Atli varð Íslandsmeistari með KR árið 2011 og aftur á síðustu leiktíð.

Finnur Atli er tengdur inn í mikla Haukafjölskyldu, en unnusta hans er körfuknattleikskonan Helena Sverrisdóttir. Hún sneri aftur heim úr atvinnumennsku í sumar og spilar og þjálfar kvennalið Hauka á næstu leiktíð.

KR-ingar eru nú þegar búnir að fylla í skarðið fyrir Finn Atla, en Íslandsmeistararnir hafa tryggt sér þjónustu Blikans Snorra Hrafnkelssonar sem spilaði með Njarðvík undanfarin tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×