Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar krefur borgaryfirvöld í Feneyjum um 360 þúsund evrur, eða um 53,4 milljónir króna, vegna lokunar moskunnar sem var framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í ár.
Þetta kemur fram í frétt Art Newspaper. Dómstóll á Ítalíu mun taka mál Kynningarmiðstöðvarinnar gegn Feneyjaborg fyrir miðvikudaginn 29. júlí og er búist við að niðurstaða liggi fyrir nokkrum dögum síðar.
Verkið, sem er hugarfóstur hins svissnesk-íslenska Christop Buchel, er íslömsk moska sem sett hefur verið upp í fornfrægri kaþólskri kirkju frá 10. öld. Moskunni var lokað í maí eftir að hafa verið opnuð einungis tvær vikur fyrr.
Í fréttinni segir að lögmaður Kynningarmiðstöðvarinnar hafi fengið aðgang að þeim skjölum borgarinnar sem tengist málinu.
Vilja fulltrúar borgarinnar meina að verkið hafi brotið gegn reglugerðum um heilbrigðis- og öryggismál. Þá hafa fjölmiðlar greint frá því að feneysk yfirvöld hafi óttast að hætta væri á að íslamskir öfgamenn myndu beina sjónum sínum að verkinu.