Íslenski boltinn

Upprifjun: Hornspyrnur KR-inga voru banabiti Blika

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR og Breiðablik mætast í stórleik 13. umferðar Pepsi-deildar karla í kvöld.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur í toppbaráttu deildarinnar en með sigri minnka Blikar forskot KR-inga á toppnum niður í eitt stig. Vinni KR-ingar hins vegar ná þeir fimm stiga forskoti á toppnum.

Þessi sömu lið mættust í eftirminnilegum leik á KR-vellinum í 12. umferð 2011.

Blikar voru ríkjandi Íslandsmeistarar á þeim tíma en þeir unnu titilinn í fyrsta og eina sinn í sögu félagsins 2010.

Titilvörn þeirra grænklæddu var þó ekki merkileg og þeir voru í 5. sæti þegar að leiknum við KR kom, níu stigum á eftir KR-ingum sem sátu ósigraðir í toppsætinu.

Og KR-ingar sýndu mátt sinn og megin gegn Breiðabliki. Þeir leiddu 3-0 í hálfleik en öll mörkin komu eftir hornspyrnur.

Guðjón Baldvinsson skoraði fyrsta markið strax á 2. mínútu með föstu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Bjarna Guðjónssonar, núverandi þjálfara KR, í kjölfar hornspyrnu.

Á 27. mínútu kom Skúli Jón Friðgeirsson KR í 2-0 með skoti rétt fyrir utan markteig eftir hornspyrnu Bjarna og sendingu Baldurs Sigurðssonar.

Óskar Örn Hauksson skoraði svo beint úr hornspyrnu þremur mínútum fyrir hálfleik en Ingvar Þór Kale, markvörður Breiðabliks, missti boltann klaufalega inn fyrir línuna.

Kjartan Henry Finnbogason tryggði svo KR endanlega sigurinn þegar hann skoraði úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur á 71. mínútu.

Kjartan var markahæsti leikmaður KR þetta sumarið en hann skoraði 12 mörk í deildinni.

KR-ingar tryggðu sér 25. Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins með 3-2 sigri á Fylki í næstsíðustu umferð en þeir urðu einnig bikarmeistarar eftir 2-0 sigur á Þór í úrslitaleik.

Breiðablik bjargaði sér hins vegar frá falli með sigri á Þór í næstsíðustu umferðinni. Blikar enduðu tímabilið í 6. sæti, 20 stigum á eftir meisturum KR.

Leikur KR og Breiðabliks hefst klukkan 20:00 í kvöld. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport en auk þess verður hægt að fylgjast með honum í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×