Íslenski boltinn

Hermann: Héldum að við værum betri en við erum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Vísir/Valli
„Þetta var stórt kjaftshögg. Svona er boltinn. Það er gaman þegar vel gengur og svo færðu á kjaftinn þegar þú ferð fram úr þér,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, eftir 4-0 tap fyrir Fjölni í kvöld.

Fylkir hafði fengið fjögur stig úr fyrstu tveimur leikjum sínum undir stjórn Hermanns en fékk á baukinn á heimavelli í kvöld.

„Ef þú vinnur ekki grunnvinnuna þá verður þér refsað fyrir það. Við vorum að gaufast með boltann og leyfðum þeim að pressa okkur. Við héldum að við værum aðeins betri í fótbolta en við erum og gefum þeim möguleika á að pressa okkur.“

Fylkir lenti snemma undir og var staðan í raun orðin 2-0 áður en heimamenn vissu af.

„Eftir þetta fyrsta kjaftshögg þá erum við að vinna okkur inn í leikinn og þá kemur næsta kjaftshögg sem er aftur gauf, hálfkák og aulagangur. Þér verður refsað fyrir það.

„Við skjótum okkur sjálfa í fótinn þegar við erum að vinna okkur út úr þessu. Þá er þetta hrikaleg brekka. Ef þú droppar frá einhverjum reglum sem eru settar inn í liðið þitt og grunn sem þú ert að vinna út frá af því að það eru komin einhver stig. Þá getur þú gleymt þessu,“ sagði allt annað en sáttur Hermann.

Í fyrstu leikjum Fylkis undir stjórn Hermanns gat liðið setið til baka og sótt hratt. Í kvöld þurfti liðið að stjórna spilinu en Hermann sagði það ekki hafa verið ástæðu tapsins.

„Það tekur tíma að byggja þetta upp. Við vorum með boltann meira og minna í þessum leik en þegar þú lendir fljótt 2-0 undir þá verður þetta óttalegur rembingur. Þú tekur fleiri sénsa og annað slíkt. Við þurfum að læra fyrst að þar sem fótboltinn byrjar er að gefa ekki mörk, setja þau á silfurföt, pakka þeim inn og henda inn í klefa hjá þeim. Þú getur gleymt því að þú ætlir að vinna eitthvað svoleiðis.

„Þetta var ekki góður leikur. Þegar þú færð svona kjaftshögg og ert með svona gjafir þá missir þú trúna á verkefninu í heildina og það er eins og það er,“ sagði Hermann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×