Íslenski boltinn

Tókust Ásgeir Börkur og Ásmundur í hendur? | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Athygli vakti að Ásgeir Börkur Ásgeirsson, fyrirliði Fylkis, og Ásmundur Arnarsson, þjálfari ÍBV, virtust ekki takast í hendur að leik liðanna í gær loknum.

Fylkir vann leikinn 0-1 en Ásmundur var þarna að mæta sínu gamla félagi sem hann stýrði í þrjú og hálft tímabil.

Ásmundi var sagt upp störfum hjá Fylki eftir 4-0 tap fyrir ÍBV í 8-liða úrslitum Borgunarbikarsins í síðasta mánuði en skömmu síðar var hann ráðinn þjálfari ÍBV út tímabilið.

Við starfi hans hjá Fylki tók Eyjamaðurinn Hermann Hreiðarsson og undir hans stjórn hefur Árbæjarliðið náð í sjö stig í fjórum deildarleikjum.

Sögusagnir hafa verið á kreiki um meint ósætti Ásgeir Barkar og Ásmundar, sérstaklega eftir að ummæli miðjumannsins baráttuglaða í viðtali við 433.is í október í fyrra voru rifjuð upp.

Þar lýsti Ásgeir Börkur yfir hrifningu sinni á Hermanni og sagði að hann væri rétti þjálfarinn fyrir Fylki.

„Hemmi Hreiðars er fyrst og fremst sigurvegari og hann er algjörlega rétti maðurinn fyrir Fylki. Svona gæjar vaxa ekkert á trjánum og þetta er maður sem myndi gera mikið fyrir félag eins og Fylki,“ sagði Ásgeir Börkur sem var leikmaður GAIS í Svíþjóð á þessum tíma.

„Ef Fylkir ætlar að stíga skrefið fram á við þá held ég að Hemmi sé algjörlega rétti maðurinn í brúnna en það er bara mín persónulega skoðun sem stuðningsmaður liðsins,“ bætti Ásgeir Börkur við en hann hefur svarið af sér allar sakir í þessum efnum, m.a. í viðtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Akraborginni.

Handbandið, eða ekki-handbandið, í gær má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Ásmundur tekur við ÍBV

Jóhannes Þór Harðarson hættir með ÍBV í Pepsi-deild karla og Ásmundur Arnarsson tekur við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×