Íslenski boltinn

Fjórtán ár síðan að FH vann ekki í fjórum heimaleikjum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason.
Atli Guðnason. Vísir/Stefán
FH-ingar taka á móti Val í kvöld í stórleik fjórtándu umferðar Pepsi-deildar karla í fótbolta en leikurinn fer fram í Kaplakrika.

Leikur FH og Vals verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 19.00.

FH-liðið er á toppi Pepsi-deildarinnar á betri markatölu en KR. Gengi FH-liðsins á útivelli er grunnurinn að þessari góðu stöðu en ekki árangur liðsins í Krikanum.

FH-ingar hafa nefnilega unnið fjóra útileiki í röð og ekki tapað stigi í Pepsi-deildinni utan Hafnarfjarðar síðan í lok maí.

Gengi liðsins á heimavelli þessi í Kaplakrika er hinsvegar að allt öðrum toga í það minnsta eftir fyrsta mánuð tímabilsins.

FH-liðið hefur ekki unnið heimaleik í Pepsi-deildinni síðan að Leiknismenn komu í heimsókn á síðasta degi maímánaðar.

FH hefur fengið samtals tvö stig út úr síðustu þremur heimaleikjum sínum á móti Breiðbliki (1-1), Fylki (2-2) og KR (1-3).

FH-liðið hefur aldrei spilað fjóra heimaleiki í röð án þess að fagna sigri síðan að Heimir Guðjónsson tók við liðinu fyrir sumarið 2008. Þetta er aðeins í annað skiptið sem liðið vinnur ekki í þremur heimaleikjum í röð undir hans stjórn.

Það eru reyndar liðin fjórtán ár síðan að FH vann ekki í fjórum heimaleikjum í röð en það var sumarið 2001 þegar liðið vann ekki heimaleik frá lok júní til lok ágústmánaðar.

Í millitíðinni FH tapaði liðið fyrir ÍA (0-1) og ÍBV (0-1) á heimavelli sínum auk þess að gera jafntefli við Fylki (0-0) og Keflavík (2-2) í Krikanum.

Þjálfari FH þetta sumar var Logi Ólafsson en FH-ingar enduðu biðina eftir heimasigri með því að vinna 3-0 sigur á Breiðabliki. Davíð Þór Viðarsson var eini leikmaður FH í dag sem tók þátt í þeim leik en þjálfarinn Heimir Guðjónsson spilaði leikinn.

Flestir heimaleikir í röð án sigurs hjá FH á þessari öld:

4 - FH 2001  [2 jafntefli, 2 töp]

3 - FH 2015 [2 jafntefli, 1 tap, enn í gangi]

3 - FH 2013  [3 jafntefli]

2 - FH 2009  [2 töp]

2 - FH 2006  [2 jafntefli]

2 - FH 2004  [2 jafntefli]

2 - FH 2004  [2 jafntefli]

2 - FH 2003  [2 töp]

2 - FH 2002  [2 jafntefli]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×