Erlent

Umsjónarmaður Palmyra tekinn af lífi

Samúel Karl Ólason skrifar
Palmyra féll í hendur ISIS í maí.
Palmyra féll í hendur ISIS í maí. Vísir/AFP
Vígamenn samtakanna Íslamskt ríki tóku fyrrverandi umsjónarmann rústanna í Palmyra og einn helsta fornleifafræðing Sýrlands af lífi í gær. Khaled al-Asaad hafði verið í haldi samtakanna í um mánuð áður en hann var afhöfðaður fyrir utan safn borgarinnar. Lík hans var svo hengt utan á eina af fornu súlum rústanna.

Al-Assad var 82 ára gamall og hafði séð um þessar tvö þúsund ára gömlu rústir í fjóra áratugi þar til hann lét af störfum árið 2003.

Yfirmaður fornminjastofnunar Sýrlands segir að al-Assad hafi verið einn mikilvægasti frumkvöðull Sýrlands í fornminjafræði á tuttugustu öldinni. Hann sagði einnig að Vígamenn ISIS hefðu reynt að fá hann til að segja þeim hvar helstu fjársjóðir rústanna hefðu verið faldir.

Palmyra féll í hendur ISIS fyrr í maí og síðan þá hefur verið óttast að þeir muni eyðileggja rústirnar, eins og þeir hafa áður gert með sambærilegar minjar í Sýrlandi sem og Írak. Samkvæmt AP fréttaveitunni hafa vígamenn þó eyðilagt styttur í þessum tvö þúsund ára gömlu rústum.

Þá tóku samtökin rúmlega 20 hermenn af lífi í hringleikahúsi rústanna. Þeir voru skotnir til bana af ungum ISIS-liðum fyrir framan fullar áhorfendastúkur af fólki.


Tengdar fréttir

Óttast um fornminjarnar

Vígasveitir Íslamska ríkisins náðu á sitt vald hluta bæjarins Palmyra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×