RB Classic götuhjólreiðamótið fer fram 30. ágúst. Björk Kristjánsdóttir, tvöfaldur Íslandsmeistari í hjólreiðum hvetur fólk til að skella sér. „Allavega hjóla einn hring ánægjunnar vegna.“
„Ég byrjaði aðeins að fjallahjóla síðasta sumar og fannst það æðislegt. Ég stunda fjallaskíði á veturna og fjallahjólreiðarnar eru bara eins og að geta gert það yfir sumartímann. Vinur minn manaði mig til þess að taka þátt í fjalla-endurokeppni í september, þar sem ég lenti í öðru sæti. Þá varð ég æstari, vildi komast í almennilegt form og fór yfir í racerinn líka,“ segir Björk Kristjánsdóttir en hún hefur á skömmum tíma stimplað sig rækilega inn í íslensku hjólasenuna.
Björk er Íslandsmeistari kvenna bæði í götu- og fjallahjólreiðum og sló þar með út eina fremstu hjólreiðakonu landsins síðustu ár, Maríu Ögn Guðmundsdóttur.
„Ég sá það á árangrinum hjá mér í fyrra að ég átti alveg séns í hana og tókst svo að vinna hana á Íslandsmeistaramótinu götuhjólreiðunum. Það er gaman að vera komin á sama stað og hún. María er frábær íþróttakona,“ segir Björk sposk.
Björk yrði seint kölluð sófakartafla, undanfarin ár hefur hún gengið á fjöll og jökla og stundað skíðaíþróttina af miklum móð. Hún féll hins vegar fyrir hjólreiðunum og æfir úti í öllum veðrum. Hún segir kúltúrinn í kringum sportið jákvæðan og skemmtilegan.
„Ég skráði mig í hjólreiðafélagið Tind sem er frábær félagsskapur. Mín upplifun af sportinu er sú að í því er allskonar fólk með allskonar bakgrunn. Fólk sem er á mismunandi forsendum að hjóla, hvort sem það vill æfa stíft eða hjóla ánægjunnar vegna, getur komið saman í þessu. Það er svo frábært að hjóla í hóp, skemmtilegt og hvetjandi.“
Hjólað kringum Þingvallavatn
RB Classic fer fram þann 30 ágúst en það er síðasta götuhjólamót sumarsins og síðasta bikarmótið. Hjólað er í kringum Þingvallavatn og keppt í tveimur vegalengdum, 127 km og 65 km. Björk lætur sig ekki vanta en hún tók einnig þátt í fyrra.
„Ég prófaði þennan hring síðasta haust og hann er ótrúlega skemmtilegur, umhverfið stórkostlegt,“ segir Björk. „Hluta leiðarinnar er hjólað á möl, sem gefur keppninni ákveðið tvist og bætir í spennuna. Ég held að fæstir geri sér grein fyrir því hvað það er í raun hægt að bjóða götuhjólinu upp á. Þau þola þetta vel og gott betur.“
Er þetta fyrir hvern sem er?
„Allir sem eru í ágætisformi ættu að ráða við þennan hring,“ segir Björk. „Fólk mætir auðvitað bara á sínum eigin forsendum og setur sér sínar persónulegu áskoranir. Ég hvet sem flesta til að taka þátt, allavega hjóla einn hring ánægjunnar vegna.“
Skráning fer fram hér
Hjólað kringum Þingvallavatn
