Körfubolti

Klaufabárðurinn McGee til Dallas

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
McGee hefur átt erfitt uppdráttar á undanförnum árum.
McGee hefur átt erfitt uppdráttar á undanförnum árum. vísir/getty
Dallas Mavericks hefur samið miðherjann JaVale McGee um að leika með liðinu næstu tvö árin.

Dallas verður fjórða liðið sem McGee spilar með í NBA-deildinni en Washington Wizards valdi hann númer 18 í nýliðavalinu 2008.

McGee lék með Washington í fjögur ár áður en honum var skipt til Denver Nuggets í mars 2012.

McGee lék með Denver þar til í febrúar á þessu ári þegar hann fór til Philadelphia 76ers. Miðherjinn lék aðeins sex leiki með Philadelphia áður en samningi hans var rift.

Þrátt fyrir gríðarlega mikla líkamsburði (miðherjinn er 2,13 metrar á hæð, 122 kg og með vænghaf upp á 2,30 metra) hefur McGee átt erfitt uppdráttar undanfarin ár m.a. vegna meiðsla. Þá hefur frammistaða hans á vellinum ekki alltaf verið upp á marga fiska.

Miðherjinn er þekktur fyrir að gera fáránleg og barnaleg mistök en hann er reglulegur skotspónn Shaquille O'Neal í dagskrárliðnum Shaqtin' a Fool í þættinum Inside the NBA þar sem brosleg mistök í NBA-deildinni eru dregin fram í dagsljósið.

Dallas vann 50 leiki í fyrra en liðið tapaði 4-1 fyrir nágrönnum sínum i Houston Rockets í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×