Thelma Rut Hermannsdóttir, sigursælasta fimleikakona Íslands frá upphafi, er hætt í fimleikum.
Thelma er aðeins 22 ára en hefur þrátt fyrir það sex sinnum orðið Íslandsmeistari í áhaldafimleikum.
Sjötta og síðasta titilinn vann hún á Íslandsmótinu í mars á þessu ári en með honum fór hún fram úr Berglind Pétursdóttur og Sif Pálsdóttur sem unnu Íslandsmeistaratitilinn fimm sinnum hvor.
„Þetta er komið gott, þetta er 19 ára ferill og það hefur gengið framar vonum hjá mér og fólkinu í kringum mig,“ sagði Thelma í viðtali við RÚV í dag.
„Ég er ánægð með þessa ákvörðun og þetta er komið ágætt,“ sagði Thelma sem útilokar þó ekki með öllu að hún klæðist fimleikabolnum á ný.
Hún segist í viðtalinu við RÚV hafa hugleitt þetta lengi og ákvörðunin hafi ekki verið auðveld. Hún segist hafa fengið leið á fimleikum fyrir tveimur árum.
„Ég fékk smá leið á tímabili en þá byrjaði allt að ganga ótrúlega vel, og betur en mér hafði gengið, og ég hélt áfram,“ sagði Thelma og bætti við: „En núna held ég að það sé kominn ágætur tími. Ég tel að ég hafi toppað allt sem ég get og er búin að standa mig ótrúlega vel og ná góðum árangri.“
Thelma stefnir á háskólanám í haust.
„Ég er búin að þjálfa og vinna í sumar og í haust ætla ég í háskólann. Ég byrjaði í háskólanum í fyrra en þurfti að hætta því ég fór til Kína að keppa. Þannig að núna ætla ég bara að taka skólann föstum tökum og gera eitthvað annað," sagði Thelma sem segir fimleikana taka mikinn tíma.
„Ég hef verið á 3-4 klukkutíma æfingum sex daga vikunnar. Ég er búin að fara á ótrúlega mörg mót, fara í yfir 35 landsliðsferðir og á mót sem var verið að halda í fyrsta skipti, eins og Evrópuleikana í Bakú.
„Þetta er búið að taka rosalega mikinn tíma og það verður pínu skrítið að hafa allt í einu lausan tíma aflögu.“
Thelma hefur ekki alveg skilið við fimleikana en hún er að fara að þjálfa fimleika hjá hverfisliðinu Fjölni.
Viðtalið í heild sinni má sjá með því að smella hér.
