Innlent

Dyflinnarreglunni verður áfram beitt hér á landi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra. vísir/ernir
Ekki kemur til greina að taka Dyflinnarreglugerðina úr sambandi hér á landi. Þetta kom fram í svari Ólafar Nordal, innanríkisráðherra, við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna, varðandi það hvort brottvísunum Sýrlendinga frá Íslandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Ólöf sagði reglugerðina einn mikilvægasta hlekkinn í Schengen-samstarfinu og því væri mikilvægt að hún væri virk. Það væri þó hins vegar svo nú að flóttafólk væri ekki sent aftur til Grikklands, Ítalíu eða Ungverjalands þar sem þau ríki væru ekki talin örugg. Þá væru yfirvöld einnig að fylgjast með ástandinu í Króatíu.

„Við teljum hins vegar mikilvægt að Dyflinnarreglugerðarverkið virki og þegar við sendum til baka þá er verið að senda fólk til baka til öruggra landa sem geta haldið utan um skráningar og lokið við málin,“ sagði Ólöf.

Þá nefndi hún jafnframt að nú reyndi mjög mikið á allt regluverk Evrópu, þar með talið Schengen-svæðið og Dyflinnarreglugerðina. Það þyrfti því að styrkja það regluverk líkt og verið væri að gera með því að styrkja ytri landamæri Schengen.

„Þegar ég segi að mér finnist ekki koma til greina að ræða Dyflinnarreglugerðina að þessu leyti þá er það vegna þess að um leið og við förum að gera það þá erum við faktískt að segja að þetta kerfi allt saman virki ekki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×