Eggin eru utan alfaraleiðar, í útjaðri þorpsins, en engu að síður er orðspor þeirra farið að breiðast út því erlendir ferðamenn leita þau uppi til að skoða og ljósmynda. Erla Dóra Vogler, ferða- og menningarfulltrúi Djúpavogs, segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að þau séu orðin eitt helsta aðdráttarafl Djúpavogs.

Eggin eru úr kínversku graníti en listamaðurinn, Sigurður, býr í Kína hluta úr ári ásamt hollenskri konu sinni, Ineke. Að sögn Erlu Dóru eiga þau jafnframt hús á Djúpavogi sem kallast Himnaríki.
Eins og nafn listaverksins gefur til kynna heitir víkin Gleðivík og er norðan við aðalbyggðina á Djúpavogi. Þau standa ofan á stöplum sem upphaflega voru undirstöður fyrir löndunarleiðslu fyrir bræðsluna. Og svo býðst ferðamönnum að kaupa afsteypur, lítil steinegg í gjafaöskjum.
Listamannshjónin Sigurður og Ineke hafa raunar einnig lífgað upp á bræðsluna gömlu með listahátíð undanfarin tvö sumur sem kallast Rúllandi snjóbolti.
„Þannig er þetta þannig séð ekki í útjaðrinum lengur heldur einskonar listamiðja,“ segir Erla Dóra Vogler.