Ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda kom saman fyrir ríkisstjórnarfund í gær.
Alls hafa 25 sveitarfélög tilkynnt velferðarráðuneytinu að þau séu reiðubúin að taka á móti flóttafólki á komandi misserum.
Eygló Harðardóttir velferðarráðherra sagði eftir fundinn að hann hefði verið árangursríkur og unnið væri að stefnumótun um móttöku flóttafólks í samráði við alþjóðastofnanir og erlend ríki.
Hún lagði hins vegar áherslu á það að Ísland tæki sjálft ákvörðun um þann fjölda flóttamanna sem til landsins kæmi.
„Nú er vinnan hafin hjá okkur og ég áætla að við munum funda stíft næstu daga og vikur í þessu máli,“ segir hún og bætir við að nefndin hafi farið yfir marga fleti og komi í ferlinu sjálfu til með að skoða vandlega viðkvæma hópa, svo sem börn og táninga.
Fimm ráðherrar eiga sæti í nefndinni auk sérfræðinga sem munu halda utan um málin fyrir hönd Íslands.
Eygló segir það ánægjuefni hversu mörg sveitarfélög hafi gefið ráðuneytinu jákvætt svar við móttöku flóttafólks.
„Það vissulega sýnir hversu mikil jákvæðni er fyrir móttöku flóttafólks og það er gleðiefni að sveitarfélögin eru 25 talsins.“
25 sveitarfélög segjast tilbúin að taka á móti flóttafólki

Tengdar fréttir

Aukna fjárveitingu þarf í málefni flóttafólks hér á landi
Þetta segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, en ráðherranefnd fundaði um málefni flóttafólks í gær.

Ísland hefur látið vita af vilja til að taka við sýrlenskum flóttamönnum
Verkefnisstjórn hefur verið skipuð í ráðuneytinu sem fundar daglega.

Ráðherranefnd um málefni flóttafólks og innflytjenda sett á fót
Forsætisráðherra vonar að hægt verði að boða til fyrsta fundar nefndarinnar í þessari viku.