Erlent

Raunir Jasída: Kynlífsþrælkun, þjóðarmorð og misþyrming

Jasídar hafa þurft að þola mikið ofbeldi frá því að vígamenn Íslamska ríkisins tóku yfir heimili þeirra í fyrra.

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP/EPA
Meðlimir íraska minnihlutahópsins Jasída hafa þurft að þola gífurlegt ofbeldi og stríðsglæpi af hendi vígamanna Íslamska ríkisins undanfarið ár. Þúsundir barna og kvenna hafa verið neyddar í þrælkun og vígamenn tóku þúsundir manna af lífi. Heilu þorpin voru þurrkuð út og fjölskyldum sundrað. ISIS sótti inn í heimahaga Jasída í byrjun ágúst í fyrra og var heimafólki tilkynnt að annað hvort tæki það upp íslam eða yrði drepið.

Öfgasamtök eins og Íslamska ríkið líta á Jasída sem djöfladýrkendur og ljóst er að þeir hafa ekki komið fram við þá eins og manneskjur. Gífurlegur fjöldi þeirra flúði heimili sín og heldur stór hluti þeirra til í flóttamannabúðum á sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í norðurhluta Írak.

Fjöldagrafir liggja á víð og dreif í kringum nærri því tóm þorp Jasída og vígamenn skildu eftir sig jarðsprengjur og gildrur. Þá voru gerðar loftárásir á þorpin á meðan vígamennirnir héldu þar til. Jasídar eru nú farnir að snúa aftur heim og standa frammi fyrir gífurlegu uppbyggingarstarfi.

Enn eru þó þúsundir kvenna og barna í haldi ISIS þar sem konurnar ganga manna á milli, kaupum og sölum, og eru neyddar í kynlífsþrælkun. Ungir drengir eru notaðir til sjálfsmorðsárása og þjálfaðir til að berjast fyrir samtökin sem rændu þeim frá fjölskyldum sínum.

Leitað að ættingjum í fjöldagröf.Vísir/AFP
Tugir þúsunda Jasída flúðu undan sókn vígamanna Íslamska ríkisins inn á heimasvæði þeirra í ágúst í fyrra. Fjölmörg þeirra flúðu upp á Sinjar fjall í Írak þar sem þau sátu föst um langt skeið. Þyrlur voru notaðar til að koma neyðarbirgðum til þeirra og til að bjarga fólki af fjallinu. Neyðarhjálpin var þó ekki næg og minnst 300, þar af mest börn, létu lífið á fjallinu úr hungri og þorsta.

Vígamenn höfðu króað fólkið af upp á fjallinu. Þegar neyð þeirra var hvað mest og íraski herinn hrundi undan sókn Íslamska ríkisins, komu Peshmerga sveitir Kúrda Jasídum til bjargar. Þær sveitir voru studdar af loftárásum Bandaríkjanna. Í fyrstu tókst Kúrdum að opna flóttaleið af fjallinu og inn í Tyrkland. Stór hluti þeirra sem flúið höfðu á fjallið komust til Tyrklands. Það var þó ekki fyrr en í desember sem umsátrið um fjallið var brotið á bak aftur fyrir fullt og allt.

Gífurlegur fjöldi Jasída hafði þá látið lífið en raunum þeirra var hvergi nærri lokið.

Þrátt fyrir að Peshmerga sveitir Kúrda hafi nú náð stórum svæðum við Sinjar fjall úr höndum ISIS, halda vígamennirnir enn þá hlutum Sinjar borgar. Fjöldi Jasída heldur enn til á fjallinu og hefur gert það í rúmt ár. Talið er að allt að 2.600 fjölskyldur búi þar enn, við erfiðar aðstæður einungis nokkur hundruð metra frá heimaborg sinni, sem enn er að hluta til í haldi ISIS.

Sameinuðu þjóðirnar segja ISIS hafa framið þjóðarmorð á Jasídum þegar heilu samfélögin voru þurrkuð út. Vígamenn fóru á milli þorpa Jasída og smöluðu íbúum þeirra saman. Menn og drengir eldri en fjórtán ára voru skildir að frá konum og stúlkum og skotnir til bana. Konurnar voru teknar höndum sem herfang.

Talið er að vígamennirnir hafi myrt allt að fimm þúsund manns á þennan hátt. Fjöldagrafir eru víða um svæðið og heimamenn bíða eftir hjálp við að grafa þær upp og bera kennsl á ættingja og vini.

Konur sem sloppið hafa úr haldi ISIS lýsa því hvernig þær voru seldar á mörkuðum eða jafnvel gefnar til vígamanna sem þóttu hafa staðið sig vel. Ungir drengir, frá átta til fjórtán ára, voru teknir frá fjölskyldum sínum og fluttir til Sýrlands eða annarra svæða í Írak.

Þar voru þeir neyddir til að taka upp íslamska trú. Þeir voru þjálfaðir til hernaðar og kennt að skjóta úr byssum og öðrum vopnum. Þar að auki voru þeir neyddir til að horfa á aftökur fanga ISIS. Þá bárust einnig fregnir af því að ungir drengir Jasída hafi verið þvingaðir til að fremja sjálfsmorðsárásir og að jafnvel hafi verið notast við þroskaskert börn.

Sjá einnig: ISIS nota þroskaskert börn til sjálfsmorðsárása



Samtökin hafa þá einnig þjálfað unga menn til hernaðar og til að taka fanga ISIS af lífi.

Hinn 14 ára gamli Raghab Ahmed slapp nýverið frá Íslamska ríkinu en hann var í þjálfun sem einn af „ljónaungum Kalífadæmisins“. Það kallar ISIS unga drengi sem þjálfaðir eru af samtökunum. Raghab hafði birst í áróðursmyndböndum samtakanna og segir hann að drengjum, sem jafnvel séu fimm ára gamlir, sé kennt að beita vopnum og drepa. Honum hafði verið rænt ásamt fjölskyldu sinni af svæði Jasída í fyrra og veit hann ekki hvort faðir sinn sé enn á lífi.

Hann segir frá því að mennirnir hafi verið aðskildir frá öðrum íbúum þorpsins sem þau bjuggu í. Svo hafi konurnar verið leiddar á brott og svo hann og hin börnin. Hann sá ekki þegar mennirnir voru myrtir, en segist hafa heyrt skothvelli og öskur.

Hér má sjá staðsetningu Sinjar fjalls. Þangað flúðu tugir þúsunda Jasída undan sókn vígamanna ISIS.
Zainab Bangura er sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna varðandi kynferðisofbeldi á átakasvæðum, en hún heimsótti meðal annars írak, Sýrland og Tyrkland í sumar. Þar ræddi hún við ungar konur sem höfðu sloppið úr kynlífsþrælkun ISIS. Hún segir samtökin nota kynferðislegt ofbeldi sem stríðsvopn. Konur og stúlkur eru gefnar vígamönnum sem þykja hafa staðið sig vel og ganga á milli manna í kaupum og sölum. Samtökin hafa notað mögulegan aðgang að kynlífsþrælum við það að reyna að fá unga menn til að ganga til liðs við sig.

Seld fyrir sígarettupakka

„Ég hlustaði á stúlkur sem höfðu reynt að fremja sjálfsmorð, stúlkur sem höfðu reynt að hlaupa á brott og stúlkur sem höfðu verið keyptar til baka af fjölskyldum sínum. Ég var slegin af þessum sögum,“ er haft eftir Bangura á vef Sameinuðu þjóðanna.

Þar segir hún frá því hvernig ung kona hafi verið seld fyrir sígarettupakka. Bangura heyrði af því að forsvarsmenn ISIS hefðu gefið út tilskipun um hve mikið ætti að greiða fyrir konur og stúlkur sem tilheyrðu annars vegar Jasídum og hins vegar kristnar konur. Verðið var breytilegt eftir aldri þeirra. Verstu söguna heyrði Bangura þó í Jórdaníu.

„Þar var mér sagt frá stúlku sem hafði verið seld í hjónaband 22 sinnum á minnst fjórum árum. Hún var 21 árs gömul og í hvert sinn sem hún var gift öðrum manni, þurfti hún að ganga í gegnum aðgerð þar sem meyjarhaft hennar var endurbyggt. 21 árs kona, gift 22 sinnum og saumuð 22 sinnum einungis svo einhverjir geti grætt peninga á henni.“

Meðal þeirra sem sloppið hafa úr haldi ISIS er hin átján ára gamla Jinan. Hún er Jasídi og var í haldi samtakanna í þrjá mánuði. Á þeim tíma var hún barin, seld og henni var nauðgað. Hún segir að ISIS reki alþjóðlegan þrælamarkað þar sem ungar konur úr hópum Jasída og kristinna eru seldar á mörkuðum. Hún sjálf var keypt af tveimur mönnum. Fyrrverandi lögreglumanni og presti. Hún og aðrir Jasídar voru læst inni í húsi þar sem þeim var misþyrmt.

Sögur ungra kvenna

„Þeir pyntuðu okkur, reyndu að þvinga okkur til að taka upp islamstrú. Ef við neituðum, þá vorum við barðar, við vorum hlekkjaðar úti í sólinni, neyddar til að drekka vatn með dauðum músum og þeir hótuðu að pynta okkur með rafmagni,“ sagði Jinan í samtali við AFP fréttaveituna. Hún hefur nú gefið út bók um reynslu sína.

Hin átján ára gamla Jinan hefur skrifað bók um raunir sínar í haldi ISIS.Vísir/AFP
„Þeir eru ekki mennskir. Þeir hugsa einungis um dauðann, að drepa og þeir eru nánast alltaf undir áhrifum eiturlyfja. Þeir leita hefnda gegn öllum. Þeir segja að einn daginn muni Íslamska ríkið stjórna öllum heiminum.“

Í bók sinni lýsir Jinan því hvernig hún og aðrar stúlkur voru eitt sinn leiddar inn í stóran sal í borginnni Mosul í Írak. Þar var mættur fjöldinn allur af vígamönnum ISIS. Þeir virtu stúlkurnar fyrir sér og klipu þær. Einn þeirra sagðist vera að leita að Jasída með blá augu og ljósa húð. „Þær eru bestar. Ég er tilbúinn til að greiða rétt verð.“

Jinan segir einnig að þær stúlkur sem töldust fallegastar voru settar til hliðar fyrir háttsetta menn innan ISIS og ríka viðskiptavini samtakanna frá Persaflóaríkjunum. Henni tókst þó á endanum að flýja og fann eiginmann sinn á nýjan leik. Þau búa nú í flóttamannabúðum Jasída á sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í norðurhluta Írak.

Góðmennskan lifir enn

Hópur íraskra og sýrlenskra smyglara hafa nú bjargað hundruð Jasída úr þrælkun ISIS síðastliðið ár. Hópurinn er leiddur af Íraka sem áður fyrr keypti landbúnaðarafurðir frá Sýrlandi. Abdullah breytti háttum sínum og hætti að kaupa landbúnaðarvörur og hóf þess í stað að kaupa þræla af ISIS og frelsa þá. BBC fylgdist með þegar Abdullah keypti nýverið hina 35 ára gömlu khatoon og fjögur börn hennar og kom þeim aftur í faðm fjölskyldunnar.



Frænku Abbdullah hafði verið rænt af ISIS fyrir um ári síðan. Henni tókst að flýja af heimilinu sem henni var haldið á í Raqqa í Sýrlandi, höfuðvígi ISIS, og fann leigubíl. Leigubílstjórinn var hræddur og sagði henni að ef hann sæist með henni myndu vígamenn myrða þau bæði. Hann flutti hana þó til vinafólks sem skýldi henni.



Marwa fannst þó þar og sá sem hafði keypt hana sagði að annað hvort myndi fjölskyldan skila henni, eða borga fyrir hana. Maðurinn hringdi einnig í Abdullah. Hann hringdi í viðskiptavini sína í Sýrlandi og tókst á endanum að ná Marwa úr haldi.



Síðan þá hefur Abdullah byggt upp net tengiliða og notað það til að kaupa og smygla rúmlega 300 konum og börnum úr haldi ISIS. Hann segir það kosta á milli sex þúsund og 35 þúsund dala að kaupa einstakling úr haldi vígamanna (um 770 þúsund til um 4.5 milljónir króna). Fáir hafa efni á því. Jafnt konur, börn og jafnvel ungabörn ganga kaupum og sölum samkvæmt Abdullah. Hann sjálfur hefur tekið þátt í að kaupa 30 daga gamalt barn af ISIS.



Trú Jasída er ævaforn og er talin í hættu.Vísir/AFP
Jasídum hefur lengi verið mismunað

Talið er að Jasídar séu um 700 þúsund og teljast flestir þeirra til Kúrda að uppruna. Í gegnum aldirnar hafa þeir margsinnis þurft að þola mikla kúgun og margskonar hótanir. Þegar Ottómanar stjórnuðu svæðinu á 18. og 19. öld er talið að þeir hafi framið minnst 72 fjöldamorð á Jasídum. Árið 2007 voru svo gerðar fjölmargar sprengjuárásir á yfirráðasvæði þeirra og létu minnst 800 manns lífið. Al-Qaeda í Írak, forverar ISIS, lýstu því yfir að Jasídar væru djöfladýrkendur og lofuðu öll morð á meðlimum minnihlutahópsins.

Á vef Guardian var því haldið fram í fyrra að um 15 próent Jasída hafi flúið Írak. Ekki er mögulegt að snúast til trúar Jasída og þeir eru mótfallnir hjónaböndum út fyrir raðir sínar. Því er ljóst að um framhald Jasída er í gífurlegri hættu. Flestir Jasídar flúðu þó á sjálfstjórnarsvæði Kúrda og eru nú byrjaðir að snúa aftur til svæðisins í kringum Sinjar fjall.

Eyðileggingin er mikil og alls staðar sjá Jasídar áminningar um raunir sínar síðasta árið. Þar að auki eru gildrur og jarðsprengjur víða um svæðið. Vice News fóru um heimasvæði Jasída og ræddu við heimamann sem hafði barist gegn ISIS. Hann segir að 38 meðlimir fjölskyldu sinnar séu enn týndir, þar á meðal tveir synir hans. Hann rifjar upp að nágrannar þeirra í nærliggjandi þorpum hafi gengið til liðs við ISIS og tekið þátt í þjóðarmorðinu sem framið var gegn Jasídum.

Ekki er víst að daglegt líf Jasída muni fara aftur til fyrra horfs á næstu árum því ekkert útlit er fyrir að lausn muni finnast á átökunum í Sýrlandi og Írak. Gífurlega stór hluti þessa tiltölulega smáa minnihlutahóps hefur látið lífið og fleiri hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Jasídar hafa ekki notið mikillar hjálpar frá alþjóðasamfélaginu og virðast hafa gleymst að miklu leyti.

Eftirlifendur lifa í ótta við að ættingjar og vinir liggi í fjöldagröfum, sem ekki hafa verið rannsakaðar almennilega og eru mögulega ófundnar enn. Stærsti bær þeirra er enn í haldi ISIS að hluta til og þúsundir kvenna og barna enn í haldi samtakanna. Eins og áður segir, raunum Jasída er hvergi nærri lokið.






×